Íslenska heilbrigðiskerfið framarlega í alþjóðlegum samanburði

Kristín Helga Birgisdóttir, doktor í heilsuhagfræði, segir það geta verið …
Kristín Helga Birgisdóttir, doktor í heilsuhagfræði, segir það geta verið flókið að mæla heilbrigðiskerfið út frá hagfræðilegri nálgun. Samsett mynd

Nýlegar greiningar á heilbrigðiskerfum benda til þess að íslenska heilbrigðiskerfið standi framarlega í alþjóðlegum samanburði. 

Þetta kemur fram í grein Kristínar Helgu Birgisdóttur, doktors í heilsuhagfræði, í nýjasta tölublaði Læknablaðsins. 

„Smá á reiki hvað er mælt“

„Það er pínu erfitt að mæla heilbrigðiskerfið út frá hagfræðilegri nálgun og setja það á staðlað form, enda er það á smá reiki hvað er mælt og hver útkoman er,“ segir Kristín í samtali við mbl.is. 

Aðferðir við að mæla heilbrigðiskerfið út frá hagfræðinni hafa tekið ýmsum breytingum í gegnum tíðina, en í eldri rannsóknum var oft miðað við atriði svo sem fjölda læknisverka og fjölda aðgerða. 

„En aðgerðin sjálf er ekkert endilega lokaafurðin, heldur á frekar að líta til þess hvernig sjúklingnum líður eftir aðgerðina eða hvað hann er lengi á lífi eftir hana.“

Nauðsyn að taka heilsuna með í reikninginn

Kristín segir útgangspunkt greinarinnar vera að það sé ekki nóg að beita hefðbundnum framleiðnimælingum þegar mælt er út frá hagfræðinni, heldur verði að taka tillit til heilsu sjúklinga. 

„Það verður aðeins bæta við næsta lagi og taka tillit til heilsunnar sjálfrar, sem er lokaafurðin í raun. Í þessum nýjustu heilsuhagfræðiskýrslum og -rannsóknum er verið að gera það, og þá kemur Ísland mjög vel út.“

Gott má alltaf betrumbæta

Þá segir hún niðurstöður greinarinnar eflaust koma mörgum á óvart, enda er íslenska heilbrigðiskerfið, svo og rekstur þess, oft og tíðum áberandi umræðuefni í þjóðfélaginu. 

„Heilbrigðiskerfið er náttúrulega alltaf stór kostnaðarbiti fyrir ríkið, eins og það er hjá flestum þróuðum ríkjum. Þannig það er alveg skiljanlegt að ráðamenn vilji fá eitthvað fyrir þennan pening, en það þarf þá líka að mæla það almennilega, enda eru margir gæðakvarðar sem þarf að taka tillit til.“

„En ég held að flestar heilbrigðisstofnanir séu að fylgjast vel þessum mælikvörðum, og er það eflaust ástæðan fyrir því að Ísland stendur sig ágætlega á alþjóðavettvangi.“

Þó bendir hún á það í greininni að mikilvægt sé, til að lágmarka kerfislæga sóun, að greina einstaka þjónustuþætti og stýra heilbrigðiskerfinu þannig að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað og réttum tíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert