Júlían um afrekið: „Þetta er ótrúlega magnað“

Sandra lyfti á dögunum Fullsterkum.
Sandra lyfti á dögunum Fullsterkum. Samsett mynd/mbl.is/Kristinn Magnússon/Skjáskot af Instagram

Sandra Bradley, þýsk kraft­lyft­inga­kona, varð á dög­un­um fyrsta kon­an í heim­in­um til þess að lyfta Full­sterk­um. Kraftlyftingamaðurinn Júlían J. K. Jóhannsson segir þetta vera rosalegt afrek hjá henni.

„Þetta er ótrúlega magnað,“ segir Júlían um afrek hennar í samtali við mbl.is, en Fullsterkur er 154 kíló­gramma steinn á Snæ­fellsnesi. 

Júlí­an er einn sterk­asti maður lands­ins og hef­ur á glæst­um …
Júlí­an er einn sterk­asti maður lands­ins og hef­ur á glæst­um ferli sín­um nælt sér í heims­meist­ara­titil í rétt­stöðulyftu svo fátt eitt sé nefnt. Júlí­an var líka val­inn íþróttamaður árs­ins árið 2019. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Mjög erfitt að ná góðu gripi

Sjálfur hefur Júlían lyft steininum og segir hann að steininn sé erfiður viðureignar. Hann segir að það sé allt öðruvísi að lyfta steinum en hefðbundnum lóðum.

„Þessi steinn er mjög sérstakur að því leytinu til að hann er þannig í laginu að það er rosalega erfitt að ná gripi á honum. Það er nú eiginlega stóra málið með hann,“ segir Júlían og útskýrir að hann sé ekki löglegur í keppnum.

Júlían lyfti steininum árið 2016 og var hann þá ekki vanur því að lyfta steinum.

„Ég var alltaf að keppast við að lyfta lóðum þannig þegar í fór þarna, að gamni gert, var ég ekki vanur steinatökum. Þannig ég var í svolítinn tíma að finna rétt tak á honum, ég var samt mjög sterkur þannig þetta er alveg yfirgengilegt hjá þessari konu.“

Fólk ferðast til landsins til að reyna við steinanna

Í Dritvík í Djúpalónssandi eru fjórir aflraunasteinar sem kraftlyftingarmenn hafa spreytt sig á í gegnum árin, þótt saga þeirra sé mögulega allt að 400 ára gömul.

Sjómenn þurftu áður fyrr að sýna styrk sinn með því að lyfta steinunum og fengu úthlutuð mismunandi hlutverk um borð í bátum í takti við getu þeirra til að lyfta steinunum.

Júlían segir að íslenskir kraftlyftingamenn reyni margir hverjir við þessa steina sem og erlendir kraftlyftingamenn. Júlían nefnir að Hafþór Júlíus Björnsson, Hjalti Úrsus Árnason og fleiri hafi vakið athygli erlendis á steinataki.

„Það er orðið svolítið þekktara að fólk sé að fara í hálfgerðar pílagrímsferðir hingað, sérstaklega svona kraftamenn- og konur, að reyna við þessa steina."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert