Ófremdarástand og úrræðaleysi í búsetuúrræðum barna

Salvör Nordal, umboðsmaður barna.
Salvör Nordal, umboðsmaður barna. Kristinn Magnússon

„Það er auðvitað mjög sorglegt að lesa að aftur og aftur er verið að brjóta á réttindum þessara barna.“

Umboðsmaður barna segir margt í skýrslu umboðsmanns Alþingis um búseturúrræðin Vinakot og Klettabæ ekki koma á óvart þó svo þær séu vissulega sláandi.

„Það hefur auðvitað verið vitað lengi að í þessum málaflokki ríkir ófremdarástand og úrræðaleysi,“ segir Salvör Nordal í samtali við mbl.is.

„Það er sláandi þegar maður les skýrsluna hvað það er margt sem þarf að laga.“

Félagsleg einangrun barnanna alvarlegt mál

Hún nefnir sem dæmi að þar skorti stuðning og úrræði. Þá sé sérstaklega alvarlegt hve mikið sé talað um félagslega einangrun barnanna í skýrslunni.

„Það er talað um að það sé dregið úr notkun þeirra á símum og samfélagsmiðlum og þau séu í takmörkuðum samskiptum við vini sína o.s.frv. Svo skortir upplýsingagjöf til barnanna,“ segir Salvör.

„Félagsleg einangrun þessa hóps er mjög alvarlegt mál að því markmiðið er ekki að loka þau af. Markmiðið hlýtur að vera þau fái að þroskast og styrkjast.“

Skortur sé á eftirliti með þjónustunni við börnin sem sé lögbundin skylda stjórnvalda. Íslensk stjórnvöld útvisti þjónustunni til einkaaðila og þar séu ekki einungis fjárhagslegir hagsmunir sem geti flækt fyrir heldur sé einnig varhugavert að sami aðili og sjái um úttekt á þjónustuþörf, veiti þjónustuna.

Niðurstöður nýrrar skýrslu umboðsmanns Alþingis um búseturúrræðin Vinakot og Klettabæ …
Niðurstöður nýrrar skýrslu umboðsmanns Alþingis um búseturúrræðin Vinakot og Klettabæ eru sláandi að sögn umboðsmanns barna. mbl.is/Eggert

Börnin geti hvergi leitað með kvartanir um starfsfólk

Umboðsmaður Alþingis hafi gert athugsemd við að börnin skorti leiðir til að leita til þriðja aðila varðandi áhyggjur og athugsemdir um þjónustuna eða einstaka starfsmenn.

„Í því sambandi má hugsa sér þær aðstæður að barnið kunni að vilja kvarta undan sama starfsfólki og ræður því hvort símtal megi fara fram eða fylgist með samtalinu.“

Þá sé sömuleiðis afar alvarlegt að skortur sé á faglærðu starfsfólki í slíkum úrræðum enda mikilvægt að börn og ungmenni í þessari stöðu hljóti faglega þjónustu.

„Það er bara vitað að það er þarna hópur barna sem er ekki að fá þá þjónustu sem þeim ber að fá og hún er án eftirlits og ríkið hefur ekki staðið sig í að setja reglur um þessi atriði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert