Stefanía tók sjálfu með Stoltenberg

Stefanía sést hér á mynd með Jens Stoltenberg framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins …
Stefanía sést hér á mynd með Jens Stoltenberg framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins og Antony J. Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Ljósmynd/Aðsend

Það er ekki á hverjum degi sem hægt er að ná mynd af sér með framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins og utanríkisráðherra Bandaríkjanna en það gerði þó Íslendingurinn Stefanía Reynisdóttir í gær.

„Þetta var skemmtileg uppákoma. Okkur var smalað saman í hornið á litlu útisvæði við völlinn þar sem við biðum eftir að þeir kæmu til hópsins. Þeir eru uppteknir menn og því gerðist allt hratt. Þeir komu upp að okkur og heilsuðu stuttlega og við tókum hópmynd saman. Ég stóð nálægt Stoltenberg og með símann í hendinni stóðst ég ekki mátið að óska eftir „selfie“, sem hann tók vel í og brosti svona fallega með mér,“ segir Stefanía við mbl.is um uppákomuna og vísar þar til Jens Stoltenbergs framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins.

Stefanía og Jens Stoltenberg.
Stefanía og Jens Stoltenberg. Ljósmynd/Aðsend

Ungur leiðtogi í öryggis- og varnarmálum

Stefanía er stödd í Bandaríkjunum í boði bandaríska utanríkisráðuneytisins til að taka þátt í International Visitor Leadership Program (IVLP) í tilefni af 75 ára afmæli Atlantshafsbandalagsins sem haldið er í borginni dagana 9.-11. júlí.

Segist hún hafa verið tilnefnd af bandaríska sendiráðinu á Íslandi til þátttöku í dagskránni ásamt 14 öðrum ungmennum sem tilnefnd voru í sínum heimalöndum í Evrópu.

Við eigum það öll sameiginlegt að Bandaríkin sjá okkur sem unga leiðtoga í öryggis- og varnarmálum í okkar heimalöndum. Hvað mig varðar þá er ég stofnandi og núverandi ritari Skjaldar, sem er félag ungs fólks um öryggis- og varnarmál. Það er mikill heiður fyrir mig og félagið að fá þessa viðurkenningu sem þátttaka í IVLP felur í sér,“ segir Stefanía.

Stefanía var stödd í Washington-borg í dag þar sem hún fékk tækifæri til að taka þátt í ráðstefnu á vegum Atlantshafsbandalagsins. Fór óformleg opnun þessarar Atlantshafsbandalagsviku fram með hafnaboltaleik þar sem fyrrnefndur Jens Stoltenberg kastaði fyrsta boltanum.

Þar sem IVLP-hópurinn var á leiknum fékk hópurinn tækifæri til að fara inn á lokað svæði og hitta Stoltenberg ásamt utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Antony J. Blinken.

Stefanía var gerð að heiðursborgara bæjarins Penascola í Flórída.
Stefanía var gerð að heiðursborgara bæjarins Penascola í Flórída. Ljósmynd/Aðsend

Gerð að heiðursborgara 

Um IVLP segir Stefanía það hafa verið æðislega leið til að kynnast Bandaríkjunum betur og fá aðgengi að stofnunum og sérfræðingum þar í tengslum við Atlantshafsbandalagið og samvinnu yfir Atlantshafið. 

Hefur þá hópurinn ferðast mikið og komið við í New York, Washington og bænum Pensacola í Flórída þar sem Stefanía segir að bæjarstjórinn hafi gert hópinn að heiðursborgurum bæjarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert