„Þetta er ekki síðasti hópurinn“

Saga Kjartansdóttir hjá ASÍ segir mikilvægt að komið verði á …
Saga Kjartansdóttir hjá ASÍ segir mikilvægt að komið verði á ákveðnu verklagi, því tilfelli mansalsmála munu vera fleiri og því sé þetta nauðsynlegt. Ljósmynd/Aðsend

„Almennt gekk þetta vel en auðvitað lærðum við líka, þessi hópur sem vann í þessu, mjög mikið um hvað vantar og hvað þarf að binda í einhvers konar verklag, því þetta er ekki síðasti hópurinn sem lendir í svona, það koma aðrir hópar og einstaklingar og í ljós kom að það vantar nauðsynlega verklag og ferla."

Þetta segir Saga Kjartansdóttir sér­fræðing­ur á lög­fræði- og vinnu­markaðssviði ASÍ, í samtali við mbl.is, um meint fórnarlömb Quang Lé og þau úrræði sem standa þeim til boða.

„Það sem einkenndi þennan hóp var að þau voru ekki mikið að biðja um aðstoð nema hvað varðaði dvalar- og atvinnuleyfi og nýja vinnu. Þau voru ekki að biðja um mikla aðstoð varðandi húsnæði eða fjárhagsstuðning," segir Saga.

„Það munu koma upp fleiri mál“ og mikilvægt að búa til verklag

Spurð hvort þau séu farin að huga að verkáætlun eða undirbúningi fyrir næstu tilfelli svarar Saga játandi. 

„Já algjörlega, það er eiginlega krafa á stjórnvöld að búa til verklagið, þau eru ábyrg fyrir því að búa til aðgerðaráætlun, verklag og laga það sem þarf að laga,“ segir Saga.

„Eitt sem kom í ljós snemma í þessu máli var að dvalarleyfin sem standa þolendum mansals til boða eru í rauninni mjög léleg og voru bara gagnslaus í rauninni í þessu máli.“

„Það finnst mér vera einn af stóru lærdómunum og eitthvað sem dómsmálaráðuneytið vonandi fer að vinna í að breyta því það liggur á því að gera það, vegna þess að það munu koma upp fleiri mál og fleiri einstaklingar og þá er bara mjög slæmt að þetta sé svona lélegt," segir Saga.

Tólf fundir með fórnarlömbunum

„Við héldum í rauninni mjög vel utan um þau og það var ákvörðun sem við tókum, að funda reglulega með þeim, það er ekkert formlegt verklag en við bara gerðum þetta og það gekk vel,“ segir Saga og bætir við að Vinnumálastofnun hafi gengið vel að finna störf handa fórnarlömbunum, en þau hafi einnig verið mjög dugleg að finna sér störf sjálf.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, ASÍ og stéttarfélögin, Bjarkarhlíð og Vinnumálastofnun eru þau sem haldið hafa utan um þennan hóp og héldu þau marga fundi með fórnarlömbunum, um það bil tólf talsins.

Fundum lokið en enn viljug að hjálpa

Saga nefnir þá að tilfelli svona mála séu mismunandi og upp geta komið mál þar sem einstaklingar þurfa mun meiri aðstoð, ekki geti allir farið beint að vinna til dæmis.

„Þess vegna þarf þetta að vera bundið í eitthvað verklag,“ bætir hún við.

Eitt þeirra flutti úr landi

Saga og starfshópurinn héldu lokafund með þessum hópi í júní og þá voru þau öll komin með störf eða aðra framfærslu og mat starfshópurinn það sem svo að ekki væri lengur þörf á fundunum segir Saga. Hún bætir við að einn þeirra hafi flutt af landi en það sé alger undantekning, þar sem þau flest hafi viljað vera áfram á landinu og koma hingað með það í huga að búa hér lengi.

„Við vildum tryggja að þau vissu að þau geta alltaf leitað til okkar, við erum enn þá boðin og búin að aðstoða með hvað eina," bætir hún við og segir að á lokafundinum hafi mörg þeirra mætt og létt hafi verið yfir þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert