Tjaldið reist eftir fjögurra ára fjarveru

Sirkustjaldið Jökla var reist í gær í Vatnsmýrinni.
Sirkustjaldið Jökla var reist í gær í Vatnsmýrinni. mbl.is/Eyþór

Í fyrsta sinn síðan árið 2019 hefur Sirkus Íslands reist sirkustjaldið Jöklu í Vatnsmýrinni fyrir sýningar í sumar en Alda Brynja Birgisdóttir, annar stofnandi sirkussins, segist vona að þessar sýningar verði fastur liður á sumrin.

„Við finnum fyrir heilmiklum áhuga og vonumst til þess að sem flestir komi og sjái okkur,“ segir Alda Brynja í samtali við mbl.is en sýningar þeirra í sumar verða allar sýndar næstu helgi.

Alda Brynja segir kórónuveirufaraldurinn hafa stöðvað sýningar á sínum tíma en síðustu tvö árin hafi verið erfitt að koma hópnum saman þar sem allir voru uppteknir við mismunandi verkefni.

Alda Brynja segir næstu daga annasama fyrir sirkusinn þar sem …
Alda Brynja segir næstu daga annasama fyrir sirkusinn þar sem listafólkið æfi fyrir frumsýninguna á föstudaginn. mbl.is/Eyþór

Annasamir dagar fram undan

Það er meiri háttar lífsreynsla að fara í svona sýningarhelgi,“ segir Alda Brynja, en að hennar sögn eru dagarnir fram undan annasamir fyrir sirkusinn þar sem starfsfólkið var á fullu í gær við að setja upp tjaldið og mun svo vera að æfa þar fyrir frumsýninguna á föstudaginn.

Listamennirnir í sýningunni eru tíu talsins en Alda Brynja segir hópinn í heild sinni vera í kringum 15 til 20 manns.

Alda Brynja er menntaður líffræðingur og var kennari þegar hún kynntist sirkusnum en nú eru 16 ár liðin síðan Sirkus Íslands var stofnaður og er hún enn virk í starfi hans ásamt því að vera stærðfræðikennari í grunnskóla.

Að sögn Öldu Brynju þurfa listamennirnir að halda sér í æfingu þar sem sirkusinn sé starfandi allt árið í kring en þrátt fyrir hlé sumarsýninganna hafi þeir verið að sýna á alls konar viðburðum.

Sirkustjaldið var síðast reist árið 2019.
Sirkustjaldið var síðast reist árið 2019. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert