Útflutningstekjur iðnaðar drógust saman um 10%

Alcoa Fjarðarál.
Alcoa Fjarðarál. mbl.is/Sigurður Bogi

Samdráttur í útflutningstekjum áls og kísiljárns olli því að heildarútflutningstekjur iðnaðar drógust saman á milli áranna 2022 og 2023 um 75 milljarða króna, eða tæplega 10%. Fóru þær úr 773 milljörðum króna niður í 698 milljarða, sem er 38% af heildarútflutningstekjum þjóðarbúsins. 

Til samanburðar námu útflutningstekjur ferðaþjónustunnar á síðasta ári 598 milljörðum króna (32%) og sjávarútvegs 352 milljörðum króna (19%).

Þetta kemur fram í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins, þar sem segir að iðnaður sé stærsta útflutningsgrein landsins. 

Útflutningstekjur álfyrirtækjanna þriggja, RioTinto, Norðuráls og Alcoa, námu 324 milljörðum króna á síðasta ári, sem er ríflega 17% af heildarútflutningsverðmæti þjóðarbúsins.

Verðlækkun á afurðum

Tekjur iðnaðar af útflutningi á áli og kísiljárni námu alls 370 milljörðum króna á síðasta ári. Útflutningstekjur af þessum hluta iðnaðar drógust saman á milli áranna 2022 og 2023 en árið 2022 námu þær 466 milljörðum króna. Ástæða samdráttarins er verðlækkun á afurðum ásamt áhrifum af skerðingu raforku á útflutning greinarinnar, að því er segir í greiningunni.

Vöxtur hugverkaiðnaðar

Á síðasta ári voru fluttar út iðnaðarvörur fyrir 504 milljarða króna og þjónustuútflutningur iðnaðar nam 194 milljörðum.

„Með vexti hugverkaiðnaðar á síðustu árum hefur hluti þjónustu í heildarútflutningi iðnaðar farið vaxandi, en innan hugverkaiðnaðar er bæði vöru- og þjónustuútflutningur. Nam hluti þjónustu í útflutningi iðnaðar 28% árið 2023 samanborið við 14% árið 2013. Í þessu ljósi er það mikilvægara nú en áður að horfa til heildarumfangs útflutningstekna iðnaðar en ekki einungis útflutnings iðnaðarvara þegar þróun og vægi útflutnings greinarinnar er metið ásamt áhrifum þess á hagkerfið," segir í greiningunni.

Tvær af fjórum meginstoðum útflutnings Íslands eru innan iðnaðar, þ.e. orkusækinn iðnaður og hugverkaiðnaður. Útflutningstekjur hugverkaiðnaður voru 263 milljarðar króna á síðasta ári, sem er ríflega 14% af heildarútflutningstekjum hagkerfisins á því ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert