Hitamælirinn við Kröflu sýndi 24,6 gráður klukkan 13 í dag en nokkuð víða er hitinn kominn yfir 23 gráður.
„Það er orðið vel heitt inn til landsins eins og í Mývatnssveitinni, Aðaldal og Bárðardal og verður það líka á morgun,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Í Mývatnsöræfum mældist hitinn 23,6 gráður, á Végeirsstöðum í Fnjóskadal 23,4 og á Reykjum í Fnjóskadal 23,2.
„Það er enn þá rými fyrir einni til þremur gráðum til viðbótar en hins vegar er hafgolan farin að gera vart við sig víða fyrir norðan. Þeir sem verða ekki fyrir áhrifum hennar munu fá frábært veður í dag. Það verður mjög gott veður inn til landsins í dag og á morgun,“ segir Óli Þór en spár gera ráð fyrir því að hitinn geti náð um eða yfir 26 gráðu,.