Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst í gær tilkynning um mann sem fékk gat á höfuðið er hann var að gera við nema undir vaski.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og segir þar jafnframt að maðurinn hafi ætlað að koma sér sjálfur á bráðamóttöku, um vinnuslys hafi verið að ræða.
Er þetta eitt af þeim 135 málum sem voru skráð í kerfi lögreglunnar síðasta hálfa sólarhringinn.
Nokkuð um að ökumenn væru stöðvaðir í akstri og er greint frá sex slíkum atvikum í dagbókinni. Tveir ökumannanna voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna eða gruns um ölvun við akstur. Báðir voru þeir lausir að lokinni blóðsýnatöku.
Þrír voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur. Tveir fengu sekt en sá þriðji var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða. Ók hann á 112 km hraða á götu þar sem leyfilegur hámarkshraði er 50 km hraði. Sjötti ökumaðurinn var réttindalaus og var mál hans afgreitt með sekt.
Tveir voru handteknir fyrir sitt hvora líkamsárásina í Breiðholti, voru þeir báðir vistaðir í fangageymslu. Þá var einn maður handtekinn í Garðabæ fyrir líkamsárás og var hann jafnframt vistaður í fangageymslu.
Einnig var tilkynnt um tvö umferðarslys. Annars vegar var um að ræða slys þar sem hjólreiðarmaður hafði dottið á rafmagnshlaupahjóli. Um minniháttar meiðsl var að ræða en maðurinn var grunaður um ölvun.
Hins vegar var tilkynnt um umferðarslys þar sem mannlaus bifreið hafði runnið inn í garð og ollið minniháttar skemmdum. Sem betur fer urðu engin meiðsl á fólki.