Meðalævilengd karla styttist um 0,4 ár frá árinu 2022. Á sama tíma styttist ævilengd kvenna um 0,1 á milli áranna 2022 og 2023. Þrátt fyrir það hafa karlar bætt við sig tæplega sex árum frá árinu 1985 og konur tæplega fjórum árum í meðalævilengd.
Meðalævilengd karla á Íslandi var 80,7 ár árið 2023 og meðalævilengd kvenna 83,8 ár en meðalævilengd sýnir hve mörg ár einstaklingur á að meðaltali ólifuð við fæðingu ef miðað er við aldursbundna dánartíðni mannfjöldans.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofu.
Árið 2023 létust 2.571 einstaklingar sem búsettir voru á Íslandi, 1.376 karlar og 1.195 konur. Dánartíðni var 6,8 látnir á hverja 1.000 íbúa og lækkaði um 0,5 á milli ára, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Árið 2023 mældist ungbarnadauði á Íslandi 2,3 börn af hverjum 1.000 lifandi fæddum sem er aukning um 0,9 frá árinu 2022. Þegar hins vegar er horft á tíu ára tímabil (2013–2022) var ungbarnadauði á Íslandi að meðaltali 2,0 börn af hverjum 1.000 lifandi fæddum og var ungbarnadauði hvergi í Evrópu jafn fátíður og hér nema í San Maríno (1,8) og Finnlandi (1,9).
Fyrir sama tímabil var ungbarnadauði að meðaltali 2,1 barn í Slóveníu og Eistlandi, 2,2 í Noregi og 2,3 í Svíþjóð. Tíðastur var ungbarnadauði í Aserbaídsjan, 10,8 af hverjum 1.000 lifandi fæddum yfir tímabilið 2013-2022 samkvæmt tölum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.
Árið 2023 var ólifuð meðalævi 30 ára kvenna með grunnskólamenntun 52,5 ár á meðan þrítugir grunnskólamenntaðir karlar máttu búast við því að lifa 48,8 ár til viðbótar. Konur með framhaldsskólamenntun gátu vænst þess að lifa tæplega þremur árum lengur en stallsystur þeirra með grunnskólamenntun eða í 55,3 ár frá 30 ára aldri.
Munurinn var aðeins meiri á meðal karla þar sem ólifuð ævi 30 ára karla með framhaldsskólamenntun var að meðaltali 52,1 ár eða rúmlega þremur árum lengri en karla með grunnskólamenntun, að því er segir í tilkynningunni.
Þrítugir háskólamenntaðir einstaklingar gátu átt von á því að lifa mun lengur en þeir sem minni menntun höfðu. Þannig var ætluð ólifuð meðalævi 30 ára kvenna með háskólamenntun 56,4 ár eða fjórum árum lengri en þrítugra kvenna með grunnskólamenntun árið 2023.
Ólifuð ævilengd 30 ára karla með háskólamenntun var 53,8 ár eða fimm árum lengri en þrítugra karla með grunnskólamenntun. Á milli áranna 2011-2023 jókst ævilengd háskólamenntaðra mest eða um 1,7 ár á meðan hún jókst um 1,3 ár á meðal framhaldsskólamenntaðra en minnkaði hins vegar á meðal grunnskólamenntaðra um 0,2 ár.