Engin merki um eldgos – Hlaupið hefur náð hámarki

Mynd úr eftirlitsflugi með þyrlu Landhelgisgæslunnar síðdegis í dag. Á …
Mynd úr eftirlitsflugi með þyrlu Landhelgisgæslunnar síðdegis í dag. Á myndinni sjást upptök hlaupsins við jökulsporð Sandfellsjökuls í austurhluta Mýrdalsjökuls í fjarska. Ljósmynd/Veðurstofa

Verulega hefur dregið úr rennsli í jökulhlaupinu í Skálm, samkvæmt vatnshæðamæli á Skálmarbrú. Engin merki sjást í gögnum Veðurstofunnar um að eldgos hafi valdið jökulhlaupinu sem varð þar í dag.

Hlaupið hefur því náð hámarki við þjóðveginn.

Þetta kemur fram í frétt á vef Veðurstofu Íslands. Nokkrir dagar geta liðið þangað til að rennslið kemst í eðlilegt horf miðað við árstíma. 

Um 700 metra kafli þjóðvegarins er skemmdur eftir að jökulhlaupið flæddi yfir vegin. Skálmárbrúin er þó óskemmd og vegkaflinn opnar mögulega á morgun, að því gefnu að þróunin haldi fram sem horfir.

Upptökin við Sandfellsjökul

Vísindamenn Veðurstofunnar og Háskóla Íslands fóru í eftirlitsflugi með þyrlu Landhelgisgæslunnar síðdegis í dag.

Á mynd sem tekin var í fluginu sjást upptök hlaupsins við jökulsporð Sandfellsjökuls í austurhluta Mýrdalsjökuls í fjarska.

Veðurstofan kveðst halda áfram að vakta svæðið og fylgist með óróa og jarðskjálftavirkni undir jöklinum.

Engin merki um eldgos

Tekið getur allt að sólarhring fyrir þá virkni að komast aftur í það sem kallast „eðlileg bakgrunnsvirkni“, svo hægt verði að lýsa því yfir að þessari atburðarás sé lokið, að sögn Veðurstofu.

„Engin merki sjást í gögnum Veðurstofunnar um að eldgos hafi orsakað jökulhlaupið sem varð í dag,“ segir að lokum en í upphafi útilokaði Veðurstofan ekki að eldgos hefði getað hrint atburðarásinni af stað.

Hlaupið í Skálm er talið sambærilegt við hlaupið í Múlakvísl 2011 og sömuleiðis hlaupið sem var í Múlakvísl árið 1955.

Dregið hefur úr rennslinu í Skálm. Hlaupið hefur náð hámarki …
Dregið hefur úr rennslinu í Skálm. Hlaupið hefur náð hámarki við þjóðveginn. Ljósmynd/Sveinbjörn Darri Matthíasson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert