Jökulhlaupinu í Skálm austan Mýrdalsjökuls er líklega lokið. Vatnshæðin er komin niður fyrir það sem var fyrir hlaup. Nokkrir jarðskjálftar hafa mælst í vestanverðum Mýrdalsjökli. Mögulegt er að annað jökulhlaup hefjist þar. Veðurstofan fylgist með stöðu mála.
„Það er svolítill órói núna vestan megin í Mýrdalsjökli. Það gæti eitthvað gerst þeim megin,“ segir Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Böðvar og aðrir sérfræðingar Veðurstofunnar munu funda í dag og fara yfir stöðuna.
Þá er talið mögulegt að tvö hlaup hafi verið í gangi í gær, í Skálm og í vestanverðum Mýrdalsjökli.
„Það er mjög trúlegt að það hafi verið lítið hlaup þarna megin líka. Það hafi í raun verið tvö hlaup í gangi í gær,“ segir Böðvar.