Birta Hannesdóttir
Ástandið á gönguslóða við Leirhnjúk í Mývatnssveit er vægast sagt slæmt og býður hættunni heim, að sögn Bjarna Meyer Einarssonar ökuleiðsögumanns.
„Ég myndi nú segja að þetta skapi meiri hættu en góða ferðaupplifun,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.
Hann hefur unnið sem ökuleiðsögumaður í 14 ár og segist sjaldan hafa orðið var við jafn slæmar aðstæður á öðrum ferðamannastöðum sem hann hefur heimsótt.
Gönguslóðinn og göngupallarnir sem um ræðir liggja að Leirhnjúk og eru verulega laskaðir að sögn Bjarna.
Venjulega eru slíkir göngustígar lagðir til að stýra umferð og koma í veg fyrir að fólk raski landinu í kring.
Bjarni segir þó að fólk virðist ekki eiga annarra kosta völ en fara út af slóðanum til að halda áfram leið sinni.
„Ég sé á þessu svæði að það er töluvert af fótsporum utan við og það má þá draga þá ályktun að það sé vegna þess að göngustígarnir eru hættulegir,“ segir hann.