Skaðleg efni í vöru sem konur nota oft og mikið

„Þessar niðurstöður koma mér ekki á óvart og eru í rauninni bara mjög sorglegar,“ segir Sunneva Halldórsdóttir, meistaranemi í líf- og læknavísindum, um þungmálma sem uppgötvuðust nýverið í túrtöppum.

Sunneva er umsjónarmaður Instagram-reikningsins Efnasúpan þar sem hún birtir fræðsluefni um efni sem við komumst í snertingu við í daglegu lífi. 

Sunneva og Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, ræddu skaðleg efni í tíðavörum og ójöfnuð í tengslum við heilsu kvenna í viðtali í Dagmálum nýverið.

Sunneva segir það afar sorglegt að efnin séu sett í …
Sunneva segir það afar sorglegt að efnin séu sett í vöru sem konur nota oft og mikið. Eggert Jóhannesson

Þegar fundið hormónaraskandi efni

Rannsókn á vegum Berkeley-háskóla leiddi nýverið í ljós að 287 tegundir túrtappa frá Evrópu og Bandaríkjunum, bæði hefðbundnir og lífrænir, innihéldu alla 16 þungmálma sem voru undir í rannsókninni. Þar á meðal blý, sink, kvikasilfur, nikkel og arsen.

„Það er mjög sorglegt að við séum þarna, að þessi efni séu sett í vöru sem konur nota svona oft og mikið og komast í snertingu við slímhúðina okkar og hafa þar af leiðandi greiðan aðgang að kerfinu okkar.“

Hún segir því miður ekki um að ræða fyrstu rannsóknina sem sýni fram á skaðleg efni í tíðavörum. Önnur rannsókn frá árinu 2020 hafi leitt í ljós tíu hormónaraskandi efni, bæði í dömubindum og túrtöppum, þar á meðal þalöt, bisfenól og paraben.

„Þannig að þetta eru ekki nýjar niðurstöður þannig, en alltaf sláandi að sjá nýjar rannsóknir sem koma fram með jafn sorglegar niðurstöður.“

Áskrifendur geta horft á viðtalið við Sunnevu og Sigrúnu í heild sinni:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert