Bifreið varð alelda á Hellisheiði fyrir skömmu.
Að sögn Sveins K. Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns á Suðurlandi, komust allir þrír farþegar bílsins út úr honum af sjálfsdáðum og án nokkurra áverka. Ekki er talið að um alvarlegt slys sé að ræða.
Búið er að ráða niðurlögum eldsins, en samkvæmt Brunavörnum Árnessýslu var bíllinn sem um ræðir eldri fólksbifreið með kerru í afturdragi, og var bifreiðin á leið upp Kambana þegar eldurinn braust út.
Tveir slökkviliðsbílar voru sendir á vettvang, einn tankbíll og einn dælubíll, en að svo stöddu er ekki vitað um orsök eldsins.
Ekki urðu miklar tafir á umferð við slökkvistörf, þar sem bíllinn komst út í vegkant áður en eldurinn braust út, en töluverðan reyk lagði frá bílnum líkt og sjá má.
Fréttin hefur verið uppfærð.