Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra skilur vel af hverju nafnabreyting afbrotamanns kemur fólki spánskt fyrir sjónir. Sjálfri finnst henni eins og verið sé að gera gys að þjóðinni, þó hún vilji ekki fullyrða um hvort að það hafi verið tilgangurinn.
Í nýjasta þætti Dagmála er hún spurð út í nafnabreytingu afbrotamannsins Mohamad Kourani, sem breytti kenninafninu sínu og gengur nú undir nafninu Mohamad Th. Jóhannesson, og hvort hann sé að vanvirða þjóðina með því að taka upp eftirnafn þáverandi forseta.
„Hvort að viðkomandi einstaklingur hafi verið að gera gys að þjóðinni skal ég ekki fullyrða um. Ég tel þetta afar óheppilegt, að viðkomandi hafi nýtt sér þessa frjálsu löggjöf sem við höfum hér á landi – fyrir borgara þessa lands – til þess að breyta nafni sínu,“ segir Guðrún og bætir við:
„Ég skil það mjög vel að fólki komi þetta spánskt fyrir sjónir og vitaskuld finnst manni eins og það sé verið að gera gys að þjóðinni þegar einhver tekur upp eftirnafn forseta okkar – farsæls forseta á Bessastöðum. Þannig að ég get gagnrýnt það.“
Hún segir að ákvæði í lögum um mannanöfn, sem varðar breytingu á nafni, hafi verið ætlað fyrir almenna borgara sem bera sama nafn og afbrotamenn og líða fyrir það. Ekki fyrir afbrotamenn.
„Þessi lög voru ekki sett til þess að glæpamenn gætu breytt nafni sínu þannig þeir gætu betur falið sig í íslensku samfélagi og ég gagnrýni það mjög. Þess vegna sendum við í dómsmálaráðuneytinu fyrirspurn til Þjóðskrár hvernig þau væru að beita þessa undanþáguákvæði. Og það barst svar til ráðuneytisins fyrir helgi og við höfum verið að ígrunda það og skoða það svar nánar,“ segir Guðrún.
Erlendir ríkisborgarar sem búa á Íslandi geta sótt um nafnbreytingu á grundvelli laga um mannanöfn.
Aftur á móti lúta kenninöfn, þ.e. nöfn eins og Jónsdóttir eða Guðrúnarson, strangari skilyrðum og þarf að sýna fram á að ættingi í beinan legg hafi haft nafnið skráð í þjóðskrá við gildistöku mannanafnalaga haustið 1991.