Önnur lægð og önnur gul viðvörun: Tjöld geti fokið

Vindaspá klukkan 22 á sunnudagskvöld.
Vindaspá klukkan 22 á sunnudagskvöld. Kort/Veðurstofa Íslands

Önnur djúp lægð er á leiðinni til landsins á morgun með tilheyrandi leiðindaveðri um allt land, að því er segir í tilkynningu náttúruvárvaktar Veðurstofu Íslands.

„Seinnipartinn á morgun fer að hvessa, einkum syðst á landinu með austan og norðaustan hvassviðri eða stormi,“ segir í tilkynningunni. Um er að ræða svæði frá Öræfum og vestur undir Eyjafjöll.

Hefur því Veðurstofan gefið út aðra gula viðvörun, en sú síðasta var rétt í þessu að falla úr gildi.

Austan hvassviðri er spáð í Vestmannaeyjum og undir Eyjafjöllum á sunnudagskvöld. Vindur 15-20 m/s og búist er við snörpum vindhviðum. Veðurstofan varar við því að tjöld geti fokið og huga þurfi að lausamunum.

Vegna veðursins verður gul viðvörun í gildi á Suðurlandi frá sunnudagskvöldi klukkan 18 til mánudagsmorguns klukkan 6.

Mikið vatnsveður annað kvöld

„Talsverð eða mikil rigning fylgir lægðinni á Suðausturlandi og Austfjörðum og má búast við miklu vatnsveðri annað kvöld og allan mánudaginn (frídag verslunarmanna),“ segir í tilkynningu náttúruvárvaktar. Þar megi búast við vatnavöxtum í ám og lækjum.

Gul viðvörun tekur gildi á Suðausturlandi og á Miðhálendinu klukkan 15 og morgun og verður í gildi til klukkan 6 mánudagsmorgun. Viðvörun verður í gildi á Austfjörðum frá miðnætti sunnudagskvöld til klukkan 20 á mánudag.

Á mánudag lægir sunnan- og austanlands en gengur í norðaustan hvassviðri norðvestan til.

Uppsöfnuð úrkoma frá sunnudagskvöldi fram á mánudagskvöld.
Uppsöfnuð úrkoma frá sunnudagskvöldi fram á mánudagskvöld. Kort/Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert