„Allt gengið vel fyrir utan þetta eina atvik“

Lögreglan á Akureyri segir helgina hafa gengið vel þar á …
Lögreglan á Akureyri segir helgina hafa gengið vel þar á bæ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á Akureyri segir fórnarlamb hnífstunguárásar sem varð aðfaranótt laugardags enn vera á sjúkrahúsi en ekki í lífshættu. Upplýsir hún að nóttin hafi gengið vel þar á bæ en þó þurftu fjórir að dúsa í fangaklefa eftir nóttina.

Að sögn Jóhanns Olsen, varðstjóra hjá lögreglunni á Akureyri, voru einstaklingarnir færðir í klefa vegna ölvunar og almennra leiðinda. Þess utan hafi nóttin gengið mjög vel.

„Það voru margir úti að skemmta sér og svona erill náttúrlega að sjálfsögðu sem að því fylgir. En það má segja að þetta sé mjög gott ástand.“

Enn á sjúkrahúsi

Greint hefur verið að maður hafi verið stungin á Akureyri aðfaranótt laugardags. Segir Jóhann alla lausa úr haldi vegna þess máls en eigi þó eftir að hnýta saman einhverja lausa enda.

„Sá sem varð fyrir árásinni er, að ég best veit, enn á sjúkrahúsi. En ekki í lífshættu,“ segir varðstjórinn.

Helgin gengið mjög vel

Segir Jóhann ekki vita til þess að kynferðisbrotamál hafi komið upp í nótt og að ekki séu nein mál sem að kærur liggja fyrir á borði lögreglunnar.

Þannig helgin virðist hafa gengið vel hjá ykkur?

„Ég myndi segja mjög vel, allt gengið vel í umferðinni og allt gengið vel fyrir utan kannski þetta eina atvik“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert