Geti haft áhrif á frjósemi ungra stúlkna

„Það er bara staðreynd að konur verða fyrir áhrifum mun fleiri skaðlegra efna.“

Sunneva Halldórsdóttir, mastersnemi í líf- og læknavísindum, heldur úti Instagram-reikningnum Efnasúpan. Hún var gestur í Dagmálum nýverið til að ræða skaðleg efni í tíðavörum og ójöfnuð tengdum heilsu ásamt Sigrúnu Ólafsdóttur, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.

Rann­sókn á veg­um Berkeley-há­skóla leiddi ný­verið í ljós að bæði hefðbundn­ir og líf­ræn­ir túrtappar inni­héldu þung­málma á borð við blý, sink, kvikasilf­ur, nikk­el og arsen.

Ófrjósemi, offita, sykursýki og ADHD

Skaðleg efni umlyki okkur í daglegu lífi en að sögn Sunnevu komast konur að jöfnuði meira í snertingu við þau hvort sem það er í gegnum snyrtivörur, tíðavörum eða þrif- og heimilisvörum. 

„Þannig ég held að ójöfnuðurinn sé líka efnafræðilegur og eins og Sigrún segir tengist gróða og markaðssetningu og það er ekkert alltaf verið að hugsa um hag neytandans eða konunnar.“

Sunneva segir rannsóknina við Berkeley-háskóla ekki þá fyrstu sem sýni fram á skaðleg efni í tíðavörum og segir áhrif þeirra á heilsu þeirra sem noti vörurnar geta verið margvísleg. 

„Við vitum að mörg þessara efna verið tengd við margvísleg skaðleg áhrif hvort sem það er hormónaraskandi áhrif og áhrif á innkirtlakerfið okkar, hormónastarfsemi, eða auki líkur á ófrjósemi, offitu, sykursýki, meira að segja ADHD.“

Sunneva kveðst mestar áhyggjur hafa af ungum stúlkum sem séu …
Sunneva kveðst mestar áhyggjur hafa af ungum stúlkum sem séu að byrja að nota tíðavörur. Kristinn Magnússon

Hefur mestar áhyggjur af ungum stúlkum

Hún kveðst mest af öllu áhyggjufull yfir samverkandi áhrifum, það sé ekki endilega einn hlutur eða efni sem valdi skaðlegum áhrifum heldur blanda efna, eða efnasúpa, sem hafi heilsuspillandi áhrif. 

„Þær áhyggjur sem ég hef af þessu snúa langmest að ungum stelpum sem eru að byrja að nota tíðarvörur og þeirra líkami er að ganga í gegnum alls konar breytingar og þar er auðvelt fyrir þessi efni að hafa skaðleg áhrif á líkamann þeirra,“ segir Sunneva. 

Til að mynda geti slík efni haft áhrif á frjósemi stúlkna í framtíðinni eða aukið líkur á fjölblöðru eggjastokkaheilkenni (PCOS). Að hennar mati ættu vörur með slíkum efnum ekki að vera í sölu.

Áskrifendur geta horft á viðtalið við Sunnevu og Sigrúnu í heild sinni hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert