Hleypur fyrir björgunarsveitir í nafni föður síns

Berglind hleypur í minningu Sigga föður síns.
Berglind hleypur í minningu Sigga föður síns. Samsett mynd/Aðsend

„Þetta voru vinir og kunningjar pabba sem voru þarna að berjast fyrir lífi hans og höfðu augljóslega hent öllu frá sér og farið beint af stað. Eins og maður veit hvað björgunarsveitir eru mikilvægar þá var þetta svo magnað,“ segir Berglind Sigurðardóttir sem hleypur til styrktar björgunarsveitanna Dagrenningar og Bróðurhandar í Reykjarvíkurmaraþoninu í ágúst.

Hún hleypur í nafni föður síns, Sigurðar Sigurjónssonar eða Sigga eins og hann var alltaf kallaður, sem lést af slysförum 12. október en hún segir björgunarsveitirnar hafa spilað mikilvægt hlutverk á þeim degi.

Fór í leit að eftirlegukindum

Berglind segir að dagurinn hafi byrjað ósköp eðlilega en hún og pabbi hennar áttu gott spjall yfir morgunkaffinu, aðallega um sauðfé.

Eftir hádegi hafi pabbi hennar ásamt frænda Berglindar haldið upp á heiði  til að leita að eftirlegukindum.

Skömmu síðar fengu hún og mamma hennar fréttir af því að líklega hefði eitthvað slys eða óhapp orðið hjá þeim. Þær drifu sig upp á heiði en Berglind lýsir hræðilegri aðkomunni að slysstaðnum.

Björgunarsveitirnar færðu von

„Buggý-bíllinn hafði oltið og lá á hliðinni með pabba innanborðs. Ég rauk til hans og kom mér inn í bílinn. Byrjaði að gera allt sem ég gat til að hnoða og blása. Mamma var með neyðarlínuna í eyranu og þeir sögðu okkur að reyna að koma honum út úr bílnum sem var enginn hægðarleikur.

Ég reyndi að sparka af öllu afli innan frá í rúðuna á meðan mamma og frændi reyndu að brjóta hana upp með smalastöfunum. Átökin voru það mikil að ég man eftir að ég var hás og aum í fótunum á eftir. Á þessari stundu var vonleysið svo mikið að það var lamandi."

Berglind segir að það hafi verið einmitt þá sem bílar björgunarsveitanna og sjúkrabíll birtust „og það var eins vonin kikkaði allt í einu inn aftur, núna yrði allt í lagi, allt myndi reddast.“

Björgunarsveitirnar náðu föður Berglindar úr bílnum og hófu endurlífgunartilraunir. Mæðgurnar voru fjarlægðar úr aðstæðunum og hlúið að þeim.

Því miður tókst ekki að bjarga föður Berglindar en hún segir að þrátt fyrir allt hafi hann látist við það sem hann elskaði mest, eltast við kindur á einum af sínum uppáhaldsstöðum.

Faðir Berglindar, Sigurður Sigurjónsson, við smölun.
Faðir Berglindar, Sigurður Sigurjónsson, við smölun. Ljósmynd/Aðsend

Vildi ekki skulda neinum

Þó ekki hafi tekist að bjarga lífi föður Berglindar lýsir hún framlagi björgunarsveitanna sem ómetanlegu.

„Eftirá fór ég að hugsa hvað björgunarsveitin gerði mikið fyrir okkur. Þau voru komin til okkar einn, tveir og tíu, að mér fannst,“ lýsir Berglind og bætir við:

„Pabbi var alltaf þannig að hann mátti ekki skulda neinum neitt eða vera í þakkarskuld eða neitt svoleiðis þannig ég hugsaði að það væri sniðugt að gera þetta. Gefa aðeins til baka í hans nafni. Það er pínu mottó hjá mér að mér finnst allt slæmt, hversu ömurlegt sem það er verði að geta gefið eitthvað gott af sér.“

Söfnunin gengur vonum framar

Berglind mun hlaupa 10 kílómetra í maraþoninu og hefur sett sér það markmið að safna 200 þúsund krónum í áheit. 

Að hennar sögn hafa viðtökurnar verið rosalega góðar og í raun framar væntingum en þegar þetta er skrifað hefur hún safnað 165 þúsund krónum.

„Ég vona bara að ég nái markmiðinu. Allt umfram það verð ég himinlifandi með,“ segir Berglind.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hún hleypur í nafni einhvers en áður hefur hún hlaupið til styrktar Barnaspítala Hringsins.

„Dóttir systur minnar fæddist með ólæknandi sjúkdóm, GM-1 erfðagalla, og lést aðeins rúmlega tveggja ára og ég safnaði þá fyrir Barnaspítala Hringsins í hennar nafni,“ útskýrir Berglind.

Skorar á ferðaþjónustuna

Á áheitasöfnunarsíðu sinni hvetur Berglind ferðaþjónustufyrirtæki á Suðurlandi sömuleiðis til að styrkja Björgunarsveitir á svæðinu.

Spurð hvað komi til útskýrir Berglind að björgunarsveitirnar gegni sérstaklega mikilvægu hlutverki í samfélögum sem byggja jafn mikið á ferðaþjónustu og Suðurland.

„Það hefur sýnt sig á seinustu árum að björgunarsveitirnar hafa þurft að fara í ansi mörg útköll þar sem ferðamenn eru í vanda. Alltaf eru þetta sjálfboðaliðar sem eru tilbúnir að mæta á staðin og hjálpa. Mér finnst að ferðaþjónustan á Suðurlandi standi í mikilli þakkarskuld við þá aðila,” segir Berglind sem hvetur ferðaþjónustufyrirtæki til að sýna þakklæti í verki með því að styrkja björgunarsveitirnar.

Hér má sjá söfnunarsíðu Berglindar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert