Sérsveitin kölluð út í Mosfellsbæ í gærkvöldi

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilkynningar um skothvelli í Flugumýri í Mosfellsbæ bárust lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á tíunda tímanum í gærkvöldi. Sérsveit ríkislögreglustjóra var fengin til aðstoðar við útkallið og var töluvert lengi á vettvangi í nótt.

Lokunarpóstum var komið upp þegar útkallinu var sinnt og var lokað fyrir umferð um Skarhólabraut til um eitt í nótt vegna málsins.

„Töluvert viðbragð“ við tilkynningunni

„Það er einhver grunur um að það sé þarna einhver með skotvopn og þá fer í gang ákveðið viðbragð eins og alltaf þegar svo er,“ segir Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, upplýsingafulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is en Vísir greindi fyrst frá. 

„Þarna er auðvitað töluvert viðbragð út af þessu máli en svo kemur á daginn að það er ekkert skotvopn þarna og enginn að beita skotvopni,“ bætir Gunnar við.

Reyndust ekki vera skothvellir

Spurður hvað hefði verið í gangi og hver hljóðin hefðu raunverulega verið kveðst Gunnar ekki ætla að tjá sig um það að svo stöddu. Tekur hann þó sérstaklega fram að hljóðin hafi ekki verið skothvellir, eins og grunur lék á, enda hafi ekkert skotvopn fundist á vettvangi.

Um niðurstöðu málsins segir Gunnar einfaldlega að í svona tilfellu leiti lögregla af sér allan grun og að segja megi að málið hafi endað vel í ljósi þess að hljóðin reyndust ekki vera skothvellir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert