Búið er að kalla út björgunarsveitir í uppsveitum Árnessýslu vegna tveggja einstaklinga sem eru fastir í helli eftir grjóthrun.
Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
Landsbjörg fékk tilkynninguna um klukkan 22.30 í kvöld og eru björgunaraðgerðir því enn á algjöru byrjunarstigi.
Búið er að boða út allar björgunarsveitir á Suðurlandi sem og sérhæfða hópa af höfuðborgarsvæðinu á björgunarsvæðið og eru fyrstu hópar á leið á vettvang.
Jón Þór gat ekki veitt frekari upplýsingar að svo stöddu.