Féll í skriðu og handleggsbrotnaði

Lélegt skyggni var á svæðinu.
Lélegt skyggni var á svæðinu. Ljósmynd/Landsbjörg

Björgunarsveitir á Vesturlandi og þyrla Landhelgisgæslunnar voru kölluð út í gærkvöldi vegna göngumanns sem hafði runnið í skriðu, fallið og handleggsbrotnað.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörg.

Tveir voru á gangi á Baulu þegar slysið átti sér stað. Voru mennirnir staddir hátt í fjallinu og lélegt skyggni var á svæðinu. Nauðsynlegt var að lenda þyrlu Landhelgisgæslunnar á þjóðveginum við Bröttubrekku vegna skyggnis. Gat þyrla Landhelgisgæslunnar ekki haldið á loft með manninn fyrr en um klukkan 3.30.

Kaldir og hraktir

Björgunarsveitarfólk kom að mönnunum um klukkan 2.00 og voru þeir fremur kaldir og hraktir og sá slasaði nokkuð kvalinn.

„Björgunarfólk bjó um handleggsbrotið og gaf honum verkjastillandi. Björgunarfólk fylgdi svo göngumönnunum áfram niður og gekk sú ferð ágætlega.

Upp úr hálf fjögur í nótt fór að birta til og gat þá áhöfn þyrlu Landhelgisgæslu farið í loftið aftur og klukkan fjögur í nótt var hinn slasaði kominn í borð í þyrlu sem flutti hann til aðhlynningar á sjúkrahús í Reykjavík.

Hinn göngumaðurinn fór áfram niður í fylgd björgunarfólks þar sem fjölskyldumeðlimur tók á móti honum,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert