Lögreglan á Norðurlandi vestra telur sig hafa fundið þá sem stóðu að umtalsverðum eignaspjöllum og skemmdarverkum sem unnin voru á Húnaskóla á Blönduósi í nótt.
Rúður og hurðir voru brotnar, auk þess sem dýr tæki í mötuneyti skólans voru skemmd.
Vilhjálmur Stefánsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra, segir í samtali við mbl.is að tveir einstaklingar séu grunaðir um verknaðinn. Báðir eru undir sakhæfisaldri og verður rannsókn málsins fram haldið í samstarfi við félagsmálayfirvöld.
„Þetta er bara óvitaskapur þessara einstaklinga, og það er afar leiðinlegt að þetta hafi gerst,“ segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is.
Anna Margrét Sigurðardóttir, aðstoðarskólastjóri Húnaskóla, segir aðkomuna að skólanum í morgun hafa verið ömurlega en að skemmdarverk sem þessi séu sjaldséð.
„Í þessum skemmdarverkum eyðilögðust afar dýr tæki í mötuneytinu og er ljóst að kostnaðurinn verður einhverjar milljónir, þó að erfitt sé að slá nákvæma tölu á hann,“ segir Anna.
Rúður voru brotnar víðsvegar í skólanum, þar á meðal í smíðastofunni. Þá var eldhús skólans lagt í rúst og mörg dýr tæki skemmd, að sögn Önnu.
Anna segir nokkra óvissu með framhaldið en sumarfríi grunnskólanema lýkur brátt auk þess sem leikskólabörn áttu að mæta aftur í þessari viku.
„Ég vona að það helsta verði komið í lag áður en skólinn sjálfur byrjar. Þetta kemur þó verr niður á leikskólanum sem er hér einnig í húsinu, en þar voru einnig talsverðar skemmdir.
Leikskólinn átti að opna núna á fimmtudaginn en mötuneytið hefur einnig verið notað af honum svo eitthvað af þessu veltur á því hve langan tíma tekur að fá ný tæki í eldhúsið,“ segir Anna.