Dagana 25. til 31. júlí gátu unnendur gamla Staðarskála rifjað upp gamla tíma, bragðað á góðum heimilismat og fengið ástarpunga alveg eins og í minningunni.
Matar- og listateymið Rakel Sigurðardóttir og Alexandra Mjöll Young hafa framkvæmt ýmsa gjörninga undir nafninu Evil Foods Inc. Sá nýjasti vakti nostalgíu þvert á kynslóðir en þær opnuðu lítið veitingahús, og eins konar safn, tileinkað gamla Staðarskála.
Stöllurnar komu sér fyrir í sumarbústað steinsnar frá gamla Staðarskála og reiddu fram heimilismat og minningar á silfurfati.
„Ég er sem sagt ættuð héðan af Stað í Hrútafirði og ólst upp við að fara á sumrin að vinna í gamla Staðarskála því afi minn og bróðir hans stofnuðu Staðarskála og amma mín rak hann svo með þeim.
Þannig að við erum með allan þennan arf hérna á Stað, fullt af einhverjum gömlum blaðagreinum, alls konar gömlum hlutum úr Staðarskála, og ákváðum aðeins að tína þetta saman og elda svo mat fyrir fólk sem vill koma við hjá okkur,“ segir Rakel um gjörninginn í samtali við mbl.is.
„Við erum búnar að vera með rétt dagsins, bjóða upp á pylsur og allt það helsta sem maður fær í sjoppum, lakkrísrör og Appelsín, við erum búnar að vera að steikja ástarpunga. Þetta er aðallega forvitni okkar á vegasjoppum kannski og menningu í kringum það,“ segir Rakel.
Eins og áður sagði stóð gjörningurinn frá 25. til 31. júlí og komu um 30 til 50 manns í heimsókn til gamalla tíma dag hvern. Rakel segir gestina hafa komið alls staðar að, allt frá fólki sem vann í gamla skálanum eða átti ættingja sem unnu þar, til túristahópa og vörubílstjóra.
„Mamma er búin að standa hérna með okkur vaktina og við settum upp smá svona safn og fólk situr oft kannski bara í klukkutíma að blaða í gegnum einhverjar greinar og finna einhverja sem það þekkir á ljósmyndunum.“
Þetta vekur upp ótrúlega magnaða nostalgíu hjá fólki, það er ótrúlega gaman að sjá. Fólk með mismunandi minningar úr gamla Staðarskála. Gaman að heyra,“ segir Rakel.
Einna skemmtilegast sé að sjá þá mismunandi þjóðfélagshópa sem hafi lagt leið sína á svæðið.
„Að sjá mismunandi þjóðfélagshópa mætast hérna, það er það sem vegasjoppa er. Það koma einhvern veginn allir í vegasjoppur af því fólk ferðast um landið sama hvað,“ segir Rakel.
Þetta var þó ekki allt tekið út með sældinni og unnu Alexandra og Rakel, ásamt dyggum hjálparkokkum, myrkranna á milli til þess að geta framreitt heimilismat í hæsta gæðaflokki.
„Við erum bara búnar að vera frá morgni og langt fram á kvöld að undirbúa. Á daginn erum við að afgreiða matinn og eitthvað en á kvöldin þurfum við að preppa fyrir daginn eftir. Þannig að við erum bara búin að vera á 15 tíma vöktum, eins gott að okkur semur öllum vel því annars væri þetta örugglega farið alveg í rugl en við erum bara í góðum gír og allir hressir.“
Það mætti kannski segja að þetta sé viss menningararfur sem þið eruð að halda á lofti?
Rakel segir matinn hafa fallið rækilega í kramið hjá gestum.
„Það er gaman að geta boðið upp á heimilismat af því að það er ekki heldur alls staðar lengur. Þannig að Bjössi kom á mjólkurbílnum í morgun og fékk sér kjötbollur og hann sagði að þetta væri „glettilega gott“ og það er örugglega bara besta hrósið. Frá vörubílstjóra? Ég meina, halló,“ segir Rakel og hlær.
„Fiskibollurnar slógu heldur betur í gegn og plokkfiskurinn líka og kjötbollurnar eru alveg að standa sína plikt. Þetta er búinn að vera rosa mikill ömmumatur og ég held að fólk kunni bara að meta það nú til dags.“
„Og ástarpungarnir renna út um gluggann hjá okkur, það eru allir mjög glaðir með pungana. Við erum með upprunalegu uppskriftina úr Staðarskála þannig að fólk er mjög glatt að geta komið og fengið sér ástarpunga,“ segir Rakel.
Þá hafi alltaf verið plokkfiskur og grjónagrautur á laugardögum í gamla Staðarskála og hafi þær ákveðið að endurtaka þá hefð. Að sjálfsögðu voru lummur lagaðar daginn eftir, meðal annars úr grjónagraut laugardagsins. Lummurnar sá mamma Rakelar um að steikja.
Auk matarins gátu gestir keypt sér límmiða, handgerða ísskápasegla í formi pylsna og lottómiða.
„Þar eru stórir vinningar í boði sem smáir, það er Tesla model X, það eru ársbirgðir af Ora-baunum og svo metsölubókin „Kvöldstund á karlakránni“ eftir okkur stöllur. Það er samt smátt letur sem við mælum með að fólk lesi.“
Þá var einnig boðið upp á lifandi tónlist í kirkjunni á svæðinu. Hinar ýmsu tónlistarkonur stigu á stokk eins og K.Óla og Una Torfa. Voru tónleikarnir skipulagðir af dönsku tónlistarkonunni Söru Flynt.
Sjáið þið fyrir ykkur að gera þetta aftur, hvað er á döfinni?
„Ég held okkur langi til þess að gera þetta aftur á næsta ári, kannski verðum við lengur þá. Þetta er búið að ganga svo vel,“ segir Rakel að lokum.
Hægt er að sjá fleiri myndir frá gjörningnum og fylgjast með verkefnum Rakelar og Alexöndru á Instagram: @evil_foods_inc.