Þræða alla hella en enginn fundinn

Lélegt skyggni hefur verið á svæðinu.
Lélegt skyggni hefur verið á svæðinu. Ljósmynd/Landsbjörg

Leit að ferðamönnunum tveimur, sem tilkynntu í gærkvöldi að þeir hefðu lokast inni í helli, hefur ekki borið árangur. Enn er leitað á Kerlingarfjallasvæðinu. Verið er að þræða alla hella á svæðinu. 150 hafa komið að aðgerðinni.

Tilkynningin barst um klukkan 22.30 í gærkvöldi og voru allar björgunarsveitir á Suðurlandi boðaðar út ásamt sérhæfðum hópum frá höfuðborgarsvæðinu. Mbl.is greindi fyrst frá.

Samkvæmt tilkynningu frá Landsbjörg sem barst nú í morgunsárið var skyggni við leitina slæmt, lágskýjað og rigning en birta hefur tekið á svæðinu.

150 hafa komið að aðgerðinni

„Björgunarfólk hefur leitað vel á og í kringum þá staðsetningu sem fylgdi boðunum í gær. Þar hefur enn ekkert fundist. Gengið er út frá því að fólkið sé í helli, og verið er að þræða alla þekkta hella á svæðinu.

Nú eru við leit á svæðinu 135 manns en 150 hafa komið að aðgerðinni frá því hún hófst í gær. Þyrla frá Landhelgisgæslu varð frá að hverfa í nótt vegna skyggnis en mun taka þátt í leit að nýju með morgninum,“ segir í tilkynningunni.

Umfangsmikil leit stendur yfir.
Umfangsmikil leit stendur yfir. Ljósmynd/Landsbjörg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert