Unnur Ísold Kristinsdóttir og Steinunn Gréta Kristjánsdóttir voru í dagsferð um Austurríki þegar farþegi í sama bíl upplýsti þær um handtöku drengs vegna áætlana hans um að fremja hryðjuverk á tónleikum Taylor Swift í Vínarborg. Þær eiga miða á tónleikana sem áttu að fara fram í dag.
Þrennum tónleikum Taylor Swift, sem fram áttu að fara í kvöld, á morgun og á laugardaginn í Vínarborg, var aflýst vegna ógnar um hryðjuverk og fyrirhugaðrar sjálfsmorðsárásar, eins og áður hefur komið fram.
Í fyrstu var ekki ákveðið að hætta við tónleikana heldur auka allt öryggi í kringum þá. Því voru fyrstu viðbrögð frænkanna kvíði um að þær þyrftu sjálfar að taka ákvörðun um það hvort þær ættu að sleppa því að fara á tónleika sem hafa verið á stefnu þeirra í heilt ár, eða taka áhættuna og mæta á hugsanlegt hættusvæði.
„Það var því smá léttir þegar hætt var við tónleikana,“ segir Unnur.
„Þetta var auðvitað leiðinlegt en við erum ánægðar með að vera öruggar,“ bætir Steinunn við.
Spurðar hvernig þeim líði núna segjast þær finna fyrir smávegis tómleika í hjartanu en annars eru þær í góðum gír og glaðar að vera öruggar.
„Við ætlum að halda Taylor Swift-partý þegar við komum heim og horfa á myndina sem hún gaf út og klæða okkur upp heima,“ segir Unnur og Steinunn bætir við að þær verði með öll armböndin sem þær hafa búið til, en mikil hefð hefur myndast í kringum tónleika Swift að búa til vináttuarmbönd og skiptast á þeim við aðra tónleikagesti.
Þær voru búnar að kaupa flugmiða, panta hótelgistingu og kaupa föt fyrir tónleikana. Miðana sjálfa keyptu þær í júlí í fyrra en munu fá þá endurgreidda innan tíu daga. Þær hafa skoðað miða á aðra tónleika hjá Swift en það er allt uppselt. Þá eru sumir að endurselja miða á okurverði og nema sumir tæpri milljón í verði.
„Við höldum áfram að njóta úti, við erum að fara til Prag á morgun og höldum okkar striki,“ segir Unnur, spurð hvort þær ætli sér að fara fyrr heim eða ekki.
„Við erum í góðum gír og spenntar fyrir næsta tónleikaferðalagi,“ bæta þær við að lokum.