Dagur greiddi eigin ferðakostnað

Frá opnunarathöfn Ólympíuleikanna.
Frá opnunarathöfn Ólympíuleikanna. AFP

Einar Þorsteinsson borgarstjóri Reykjavíkur ferðaðist nýlega til Parísar til að sækja setningarathöfn Ólympíuleikanna á vegum Reykjavíkurborgar, en Einar fékk boð frá borgarstjóra Parísar, Anne Hidalgo, um að sækja athöfnina.

Setningarathöfnina sóttu háttsettir embættismenn frá ýmsum löndum og einnig var nokkuð um frægar stjörnur.

Einar fór í ferðina án aðstoðarmanns eða annarra starfsmanna Reykjavíkur, en Milla Ósk Magnúsdóttir, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra og eiginkona Einars, fylgdi honum á eigin kostnað. Þetta staðfesti Jón Halldór Jónasson, upplýsingafulltrúi hjá Reykjavíkurborg, í skriflegu svari við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Framlengdi dvölina á eigin kostnað

„Kostnaður við ferð borgarstjóra var sem hér segir: Flug til Parísar kostaði 107.295 krónur og gisting á hótelinu Novotel Montparnasse var 1.112,78 evrur, sem jafngildir um 166.683 krónum miðað við gengi dagsins,“ segir Jón í svari sínu.

„Borgarstjóri framlengdi dvölina um einn dag á eigin vegum. Dagpeningar sem borgarstjóri fékk voru 52.154 krónur.“

Ferð Dags vakti athygli

Fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson, var einnig í París á sama tíma og deildi hann myndum af því á samfélagsmiðla.

Þetta vakti athygli og fljótt myndaðist umræða um það hvort fyrrverandi borgarstjóri væri einnig í París á vegum Reykjavíkur, en svo virðist ekki vera þar sem Dagur sá sjálfur um sinn ferðakostnað og fékk ekkert fjármagn frá Reykjavíkurborg.

„Dagur greiddi sjálfur sinn ferðakostnað og fékk ekki dagpeninga frá bandalaginu,“ segir Jón í svari sínu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert