Rekstrarstjóri Tix segir tilkynningu um aflýsingu tónleikaraðarinnar Sömmer í Borgarleikhúsinu því miður ekki hafa borist tónleikagestum fyrir tónleikana í gær vegna „mannlegra mistaka“.
„Þeim var aflýst af hálfu viðburðahaldara en tilkynning þess efnis komst ekki alla leið og því urðu þeir gestir sem áttu miða í gær fyrir þessari leiðu upplifun,“ segir í skriflegu svari Örnu Johnson við fyrirspurn blaðamanns.
Greint var frá því í gærkvöldi að gestir hefðu þurft að yfirgefa Borgarleikhúsið með sárt ennið eftir að þeir komu að luktum dyrum og engum tónleikum.
Til stóð að halda sex tónleika í ágúst og áttu fyrstu tónleikar að fara fram í gær. Flytjendur á dagskrá voru Bríet og Birnir, Vök og Countess Malaise.
mbl.is ræddi við Þorstein Stephensen, skipuleggjanda Sömmer, fyrr í dag og var það skilningur Þorsteins að Tix hefði sent út tölvupóst þess efnis að ekki yrði af tónleikunum.
Segir Arna alla miða hafa verið endurgreidda og þá sem hafi bókað miða á önnur tónleikakvöld Sömmer hafa fengið skilaboð um að þeim sé aflýst vegna dræmrar miðasölu.
„Við hörmum þetta atvik og biðjum viðskiptavini innilegrar afsökunar þar sem þetta samræmist ekki þjónustu Tix Miðasölu að neinu leyti.“