Elliði Vignisson bæjarstjóri Ölfuss segir verið að undirbúa næstum 450 milljarða fjárfestingu í atvinnuskapandi verkefnum í sveitarfélaginu.
Ríflega 800 störf geti skapast ef þrettán þessara verkefna verða að veruleika í sveitarfélaginu og rúmlega 1.200 afleidd störf til viðbótar.
Fjallað er um þessi þrettán verkefni í Morgunblaðinu í dag. Þau tengjast meðal annars landeldi, ferðaþjónustu og jarðefnavinnslu. Þá er eitt stærsta gagnaver Norðurlanda áformað við Þorlákshöfn.
Elliði segir áætlað að samhliða þessari uppbyggingu muni íbúum fjölga yfir 50% til ársins 2030.
Spurður hvort næg raforka sé til fyrir öll þessi verkefni segir Elliði vel raunhæft og gerlegt að afla þeirrar orku. Raunar sé þegar búið að tryggja raforku fyrir stóran hluta af fyrsta áfanga þessara verkefna.
„Það er síðan íslenskra stjórnvalda að velja hvort þau styðja hugmyndafræðina sem við stöndum fyrir, sem er velferð á forsendum verðmætasköpunar. Við erum með skýra orku- og auðlindastefnu; öll nýting orku og auðlinda í sveitarfélaginu er háð því að hún sé til hagsbóta fyrir íbúa og fyrirtæki á svæðinu,“ segir Elliði.
Lesa má meira um málið í Morgunblaði dagsins.