Áætlaður kostnaður við nýja aðgerðaáætlun Grindavíkurnefndar er 470 milljónir króna en þar af borgar Grindavíkurbær 30 milljónir og ríkið 440. Undirbúningur framkvæmdanna er þegar hafinn þrátt fyrir yfirvofandi eldgos en Gunnar Einarsson sem situr í nefndinni segir að engin áhætta verði tekin með mannskap, vélar og tæki.
Aðgerðaáætlunin felur meðal annars í sér gerð áhættumats og jarðkönnun á svæðinu en langumfangsmesti liðurinn í henni eru viðgerðir og framkvæmdir á innviðum Grindavíkurbæjar. Viðbúinn kostnaður við þá vinnu er 413 milljónir króna.
Framkvæmdunum hefur verið skipt upp í fjóra forgangsflokka en í fyrsta flokknum eru meðal annars viðgerðir á mikilvægum samgöngu- og flóttaleiðum sem eru nú lokaðar, viðgerðir og álagsprófanir á öðrum mikilvægum leiðum og hækkun sjóvarna.
Þá á að reisa mannheldar girðingar við sprungur og önnur óörugg svæði.
Aðrar viðgerðir á innviðum sem sömuleiðis er stefnt á að ráðast í en eru settar í minni forgang eru til dæmis viðgerðir á tengigötum og íbúðargötum.
Í tilkynningu um áætlunina kemur fram að hún sé háð náttúruöflunum og að ekki sé unnið að framkvæmdum á meðan frekari jarðhræringar eru yfirvofandi á svæðinu líkt og nú.
Í samtali við blaðamann sagði Gunnar Einarsson, nefndarmaður í Grindavíkurnefnd, að þrátt fyrir það sé undirbúningur hafinn.