Myndskeið: Lenti á bílastæði og skemmdi bifreið

Sverrir Tryggvason birti myndband þar sem þyrla olli tjóni á …
Sverrir Tryggvason birti myndband þar sem þyrla olli tjóni á bíl hans við Seltjörn. Samsett mynd

Litlu munaði að þyrla lenti á bifreið við Seltjörn á Reykjanesskaga nýverið. Bifreiðin varð fyrir tjóni vegna steinkasts frá þyrlunni en eigandi bifreiðarinnar segir rekstraraðila neita að bæta honum tjónið.

Sverrir Tryggvason skipstjóri var í veiði og aðeins nýstiginn út úr bílnum er þyrla frá fyrirtækinu Glacier Heli hóf að lækka flug sitt nálægt bílnum. 

„Ég ætlaði nú ekki að láta þetta eyðileggja daginn fyrir mér en þegar við komum að bílnum sé ég að hann er allur út í rispum og dældum út af steinum,“ segir Sverrir. 

„Auðvitað verður maður pínu reiður.“

Þarf að nota eigin kaskótryggingu

Sverrir kveðst hafa haft samband við fyrirtækið Glacier Heli í kjölfarið og fengið svar á ensku um að þeir bæru ekki ábyrgð á tjóninu.

Þegar hann hafði samband við tryggingarfélag sitt kom sömuleiðis komið í ljós að þar sem Glacier Heli væri ekki með tryggingar hjá íslensku fyrirtæki, þá gæti hann ekki fengið tjónið bætt af þeirra hálfu.

„Það er Pakistani sem á þetta, flugrekstrarleyfið er frá Slóvakíu og flugvélin er frá Austurríki,“ segir Sverrir en hann kveðst einnig hafa heyrt að fyrirtækið skipti reglulega um flugrekstrarskráningu.

„Svo ég þarf að nota mitt eigið kaskó,“ segir Sverrir.

Hyggst kæra eignaspjöll

Hann kveðst þó einnig hafa rætt málið við Samgöngustofu sem geti lítið gert þar sem flugskráningin sé ekki hér. Eina leiðin sem hann geti farið til að sækja rétt sinn sé því að kæra fyrirtækið fyrir eignaspjöll.

Fulltrúi Samgöngustofu hér á landi hafi haft samband við tilsvarandi stofnun í Slóvakíu og tilkynnt að Sverrir hygðist kæra. Myndbandið hafi verið meðfylgjandi tilkynningunni.

Myndband af atvikinu má sjá hér fyrir neðan. Þess má geta að í myndbandinu segir að flugrekstrarleyfið sé norskt. Það er ekki rétt heldur er það frá Slóvakíu eins og segir í fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert