Óttast ofsóknir við heimkomuna til Venesúela

Albani ásamt börnum sínum, Paulu og Lugiano.
Albani ásamt börnum sínum, Paulu og Lugiano. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tvær fjölskyldur sem flúðu til Íslands frá Venesúela segja ástandið hafa versnað mikið eftir forsetakosningarnar sem haldnar voru fyrir rúmri viku. Á laugardag á að senda fjölskyldurnar aftur til heimalandsins þar sem þær óttast ofsóknir, fátækt, fangelsisvist og jafnvel dauðann.

Þær biðla til íslenskra stjórnvalda að fá að dvelja hér lengur á meðan ástandið í Venesúela skýrist frekar.

Íbúar Venesúela gengu að kjörborðinu í lok júlí en samkvæmt kjörstjórn landsins bar sitjandi forseti, Nicolas Maduro, sigur úr býtum.

Margir telja þó að sigurinn sé ekki réttmætur og að stjórnarandstaðan hafi í raun hlotið mikinn meirihluta atkvæða. Hvorki Evrópusambandið né Bandaríkin hafa viðurkennt sigur Maduro.

Þúsundir mótmælenda handteknir

Í kjölfar kosninganna hafa umfangsmikil mótmæli brotist út en þúsundir andstæðinga stjórnvalda hafa verið handteknir í þeim og tugir látið lífið.

Mikil óánægja hefur verið með stjórn Maduro sem hefur setið í forsetastólnum frá 2013 en meirihluti þjóðarinnar lifir undir fátæktarmörkum og nær fjórðungur íbúa hefur yfirgefið landið á síðustu árum.

Þar á meðal hafa yfir þúsund manns komið til Íslands en í október tók kærunefnd útlendingamála ákvörðun um að heimila synjun umsókna flóttamanna frá Venesúela um alþjóðlega vernd.

Blaðamaður mbl.is settist niður með tveimur fjölskyldum sem til stendur að senda úr landi á laugardaginn en þær lýstu miklum ótta og óvissu.

Refsað fyrir undirskrift

Hjónin Zoredy og Pedro hafa unnið í olíuiðnaðinum í Venesúela allt sitt líf en komu hingað til lands í byrjun árs 2023 ásamt tvítugri dóttur sinni og 12 ára syni.

Spurð hvað hafi orðið til þess að þau hafi yfirgefið heimalandið útskýra þau að sagan eigi rætur sínar að rekja til ársins 2004 þegar fyrrum forseti landsins, Hugo Chávez, var enn við völd.

Þau skrifuðu bæði undir undirskriftarlista stjórnarandstöðunnar í Venesúela til þess að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um Chávez ásamt þremur milljónum samlanda þeirra.

Samkvæmt stjórnarskrá var atkvæðagreiðslan haldin en forsetinn sigraði og svipti í kjölfarið alla sem skrifuðu undir listann réttinum til að starfa fyrir ríkið.

Zoredy og Pedro ásamt dóttur þeirra Paolu.
Zoredy og Pedro ásamt dóttur þeirra Paolu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gátu ekki unnið lengur

„Þar sem þau gátu ekki fangelsað þrjár milljónir manna ákváðu þau að taka burt rétt fólks til að starfa fyrir opinber fyrirtæki og stofnanir,“ útskýrir Zoredy.

Lengi vel gátu hjónin þó haldið áfram að vinna fyrir alþjóðleg einkarekin olíufyrirtæki í Venesúela en vegna versnandi efnahagsástandsins í landinu frá aldamótum hafa þau fyrirtæki hætt þar starfsemi eitt af öðru.

„Árið 2019 missti maðurinn minn vinnuna og ég árið 2020 og við fundum ekki aðra vinnu. Þess vegna ákváðum við að fara úr landi, því við máttum ekki vinna fyrir PDVSA sem er eina opinbera olíufyrirtækið.“

Ekki sjálfviljug heimkoma í raun

Þau ákváðu að koma til Ísland því þau stóðu í trú um að hér yrðu þau örugg. Sérstaklega í ljósi þess að landið á ekki í diplómatískum samskiptum við Venesúela.

Ferðalagið var langt en til að fjármagna það þurftu þau að selja flestar eigur sínar, bíla, húsgögn og fleira.

Síðustu 17 mánuði hafa þau dvalið í búsetuúrræði fyrir flóttafólk í Reykjanesbæ en hafa ekki fengið atvinnuleyfi þrátt fyrir að langa mikið til að vinna og gefa þannig til baka til íslenska samfélagsins.

Á laugardaginn fljúga þau aftur til Venesúela og þó að heimförin sé á blaði „sjálfviljug“ segja þau svo alls ekki vera.

„Okkur var sagt að ef við myndum ekki skrifa undir sjálfviljugu heimförina myndum við vera send til lögreglunnar,“ segir Zoredy.

Ofsóknir, mannrán og morð

Þau segjast vilja fara aftur til Venesúela einn daginn en ekki á meðan ástandið sé jafnt tvísýnt og raun ber vitni eftir kosningarnar í síðustu viku.

Fjölskylda þeirra og vinir sem eru í Venesúela segja hryllingssögurnar frá landinu, sem lesa má í fjölmiðlum, sannar.

„Þau segja okkur að staðan sé virkilega erfið. Það er verið að takmarka tjáningu, tjáningarfrelsi á samfélagsmiðlum. Fólk er ofsótt, myrt, ólögráða börnum rænt, allt þetta sem þú sérð í alþjóðlegum fréttamiðlum. Þetta er að gerast.“

Fjölskyldan er óttaslegin vegna ástandsins í Venesúela.
Fjölskyldan er óttaslegin vegna ástandsins í Venesúela. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Álitin svikarar

Þá segjast þau sérstaklega hrædd við að snúa aftur í ljósi þess að forsetinn Maduro hefur gefið út að þeir sem hafi yfirgefið landið og snúi aftur séu álitnir svikarar.

„Við vitum ekki einu sinni hvort við verðum svipt frelsi okkar þegar við komum þar sem þeir eru að segja að við höfum svikið landið,“ segir Zoredy og bætir við að þau óttist sérstaklega hvað verði um börnin þeirra.

Þau ítreka að þegar ástandið skánar geti þau hugsað sér að snúa aftur til heimalandsins en ekki akkúrat núna.

„Við erum bara að biðja um tækifæri [...] það eina sem við viljum er að geta unnið fyrir okkur,“ segja hjónin og endurtaka að þau muni ekki geta gert það í Venesúela því það var einmitt ástæða þess að þau neyddust til að fara.

„Ein af ástæðunum sem lögfræðingurinn gaf okkur var að þegar áfrýjun okkar hérna var neitað var að við erum heilbrigt fólk sem getur snúið aftur og unnið. [...] Það er einmitt það sem við viljum gera hér en fáum ekki.“

Kom til landsins með tvö ung börn

Hin 36 ára gamla Albani hefur svipaða sögu að segja en hún flúði hingað fyrir þremur mánuðum með tveimur ungum börnum sínum en fyrir hafði eiginmaður hennar verið hér í eitt ár.

Þau munu snúa til baka til Venesúela með sama flugi og Zoredy, Pedro og dætur þeirra á laugardaginn en þau eru dauðhrædd við það sem bíður þeirra.

Rétt eins og Zoerdy og Pedro myndi hún vilja verja lengri tíma á Íslandi nú þegar ástandið í Venesúela versnar með hverjum deginum.

Hún er menntaður hjúkrunarfræðingur og starfaði lengi vel sem slíkur hjá ríkisfyrirtæki í Venesúela.

Þegar hún setti sig upp á móti því sem hún var ósátt við á vinnustaðnum var hún hins vegar rekin og svipt réttinum til að starfa við fagið í landinu.

Hún greip á það ráð að flytja til Panama en lítið betra beið hennar þar svo hún sneri aftur til heimalandsins.

Albani segir ástandið í Venesúela hafa versnað mikið.
Albani segir ástandið í Venesúela hafa versnað mikið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Seldi eigur sínar

„Ég hafði verið í Venesúela í tvö ár áður en ég kom hingað. Ég gat ekki unnið löglega við það sem ég lærði en ég reyndi samt að gera hlutina upp á eigin spýtur. Ég seldi eigur mínar en það var ekki nóg.“

Þá segir Albani að eiginmaður hennar, sem var bílasali í Venesúela, hafi sætt miklum og alvarlegum fjárkúgunum en honum var ítrekað hótað bæði mannráni og lífláti.

„Þess vegna fór hann fyrst,“ útskýrir Albani og bætir við að eftir að hafa sjálf lifað í miklum ótta í ár hafi hún ákveðið að koma líka.

Rólegri hérna

Spurð hvernig henni hafi líkað veran á Íslandi segir hún: „Ég hef verið nokkuð róleg hérna því hér erum við örugg, við erum ekki stöðugt hrædd.“

Hún bætir þó við að hún hafi stundum verið nokkuð eirðarlaus og kvíðin vegna einangrunarinnar í vistunarúrræðinu á vegum Útlendingastofnunar.

„Samt er það svo miklu betra en að vera í Venesúela.“

Ástandið versnar hratt

Þegar talið berst að því hvað bíði hennar þar klökknar Albani en hún segir ástandið í Venesúela mun verra núna en þegar hún fór frá landinu fyrir þremur mánuðum.

„Maður getur ekki gengið að neinu í Venesúela núna,“ segir hún og bætir við að dæmi séu um að fólk sé sett í fangelsi án þess að fá að verja sig, það sé pyntað og jafnvel myrt.

„Við viljum bara fá aðeins meiri tíma hérna til að sjá hvort ástandið í Venesúela róist, hvort hlutirnir skáni.“

„Þeim líður illa með þetta, þau eru afslöppuð hérna

Þá segir hún að jafnvel þó að börnin hennar átti sig ekki almennilega á ástandinu í Venesúela kvíði þau fyrir að snúa aftur þangað:

„Þeim líður illa með þetta, þau eru afslöppuð hérna. Þau hafa meira að segja eignast vini hérna.“

Hún bætir við að hér geti þau leikið sér frjáls úti á götu en að það væri aldrei hægt í Venesúela.

Eins og í tilfelli hinnar fjölskyldunnar er þó um að ræða svokallaða sjálfviljuga brottför en hjá Albani er hún sömuleiðis langt frá því að vera sjálfviljug í raun.

„Svarið sem okkur er gefið er að ef við verðum áfram verði lögreglan send til að vísa okkur úr landi og okkur bannað að koma aftur til Evrópu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert