Tónleikahaldari Sömmer, Þorsteinn Stephensen, segir tölvupóst hafa verið sendan út til tónleikagesta um að ekki yrði af tónleikahaldinu.
mbl.is greindi frá því í gærkvöldi að tónleikagestir hefðu þá gripið í tómt í Borgarleikhúsinu, þar sem halda átti tónleikana. Meðal flytjenda áttu að vera Bríet og Birnir, Vök og Countess Malaise.
Segir Þorsteinn Tix hafa annast miðasölu og sömuleiðis afboðun tónleikanna. Öllum hafi verið sendur tölvupóstur og fengið miðann endurgreiddan.
„Ég veit ekki hvort einhver las ekki póstinn sinn eða pósturinn fór ekki í gegn eða hvað gerðist. En það voru allir látnir vita.“
Segir Þorsteinn tónleikunum hafa verið aflýst vegna dræmrar miðasölu, en aðspurður kveðst hann ekki muna hve margir hafi keypt miða. Hópurinn sem hafi farið í fýluferð í Borgarleikhúsið hafi þó ekki verið stór.
„Þetta voru nú ekki margir. Þetta voru um tíu manns sem höfðu samband við Tix og höfðu ekki fengið upplýsingar.“
Segir Þorsteinn afar leiðinlegt að ekki hafa tekist að halda tónleikana að sinni. Til skoðunar sé að fresta þeim þar til í vetur enda sé dagskráin frábær. Það sé aftur á móti áhætta að halda tónleika í Reykjavík á sumrin þegar fólk sé ýmist á útihátíðum og í sumarbústöðum.
„Þetta er leiðinlegt því það var búið að setja heilmikinn metnað í þetta. En það eru ekki alltaf jólin.“