Skattar á atvinnuhúsnæði hækka

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins.
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins. mbl.is/Hari

Samtök iðnaðarins áætla að fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði muni nema tæplega 39 milljörðum á næsta ári sem verði nær 7% hækkun á milli ára. Skýrist sú hækkun af hækkun fasteignamats og gangi hún eftir munu fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði verða 50% hærri að raunvirði á næsta ári en þeir voru fyrir 10 árum. Þetta kemur fram í greiningu Samtaka iðnaðarins á hækkandi fasteignasköttum á atvinnuhúsnæði sem birt er í dag.

Hátt hlutfall landsframleiðslu

Álagðir fasteignaskattar á íslensk fyrirtæki eru mjög háir í alþjóðlegum samanburði. Hlutfall fasteignaskatta á fyrirtæki í ríkjum OECD er tæplega 0,5% af landsframleiðslu en 0,8% á Íslandi. Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði í Noregi eru ríflega 0,1% af landsframleiðslu, 0,3% í Svíþjóð og 0,4% í Finnlandi.

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir skattlagninguna sem hlutfall af landsframleiðslu hafa hækkað. Á síðustu tíu árum hafi hún aukist úr 0,7% í 0,8% sem merki um að sveitarfélögin séu að seilast enn dýpra í vasa fyrirtækja og í leiðinni almennings. Þegar fjárhæðin sé skoðuð komi í ljós að hún hefur aukist allverulega og umfram verðbólgu sem þó hefur verið ærin á þessum tíma.

Segir Ingólfur 50% hækkun auðvitað gríðarlega mikla hækkun sem svo endurspegli hækkun á húsnæðisverði, verði atvinnuhúsnæðis í þessu tilfelli.

„Sveitarfélögin hafa því miður ekki séð ástæðu til að mæta því með því að lækka skattprósentuna sjálfa þótt slíkt sé sem betur fer ekki án undantekninga, það eru ákveðin sveitarfélög sem hafa lækkað,“ segir Ingólfur.

Leggst þungt á iðnaðinn

Greining samtakanna segir iðnaðarhúsnæði ríflega 39% atvinnuhúsnæðis í landinu ef miðað sé við fasteignamat. Þannig leggist fasteignaskattar þungt á iðnaðinn í landinu og þyngra en við sjáum í löndum í kringum okkur að sögn Ingólfs.

„Það kemur niður á samkeppnishæfni okkar fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum og innlendri verðmætasköpun.“

Nær helmingur sveitarfélaga er með skattlagningu atvinnuhúsnæðis í lögbundnu hámarki eða í 1,65%. Segir í greiningu samtakanna að sveitarstjórnir nokkurra stærstu sveitarfélaganna hafi á síðustu árum mætt hækkun fasteignamats með lækkun álagningarprósentunnar og eru sveitarfélögin Kópavogur og Hafnarfjörður nefnd í því sambandi. Samtök iðnaðarins telja framgöngu þeirra til fyrirmyndar fyrir sveitarstjórnir annarra sveitarfélaga, ekki síst fyrir borgarstjórn Reykjavíkur sem hafi verið treg til að lækka þessar þungu álögur á fyrirtæki á svæðinu.

Ingólfur segir hátt nær aðra hverja krónu af þessari skattlagningu í landinu renna í vasa Reykjavíkurborgar, sem sé með álagningarprósentuna nálægt lögbundnu hámarki og hafi sett sér það markmið að vera með það þannig út kjörtímabilið nánast.

„Þetta er náttúrulega mjög slæmt. Við höfum kallað eftir því að sveitarfélögin lækki álagningarprósentuna, það er mikilvægt að sú hækkun sem verður vegna þess að verð á atvinnuhúsnæði er á leiðinni upp á við sé jöfnuð út en sveitarfélögin sæti ekki lagi og auki skattlagninguna með því að halda skattprósentunni óbreyttri. Ingólfur hrósar þeim sveitarfélögum sem hafa mætt hækkun fasteignamats með lækkun álagningarprósentunnar en hnykkir á að eftir sitji stærsta sveitarfélagið.

Endurskoða þarf kerfið

Samtök iðnaðarins telja reglur um útreikning fasteignaskatta afar óheppilegar hér á landi. Álagning fasteignaskatta sé beintengd við þróun fasteignamats, sem þróast í takti við mat HMS um þróun verðs atvinnuhúsnæðis. Í kerfinu felist hvati fyrir sveitarfélög til að takmarka lóðaframboð því þannig geti þau þrýst húsnæðisverði upp og aukið sínar tekjur af fasteignasköttum.

„Þetta er óheppilegt því afleiðingarnar fyrir fyrirtækin og fyrir landsmenn eru aukin verðbólga, hærri vextir og aukin skattlagning,“ segir Ingólfur. Spurður hvort sveitarfélögin nýti þessa óheppilegu tengingu í eigin hag segir Ingólfur að ákveðin atriði bendi til þess. Bagalegt sé að kerfi séu byggð upp með þessum hætti og það þurfi að endurskoða.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert