„Í rauninni verður þetta á endanum til þess að samstaðan eykst þannig að málstaðurinn fær bara meiri byr fyrir vikið,“ segir Sigríður Hjálmarsdóttir menningar-, atvinnu- og markaðsfulltrúi hjá Hveragerðisbæ en bæjarbúar komu saman í kvöld til að mála yfir skemmdarverk á regnbogafána í bænum.
Regnbogafáninn var upphaflega málaður á götu í bænum í gær en þegar Hvergerðingar vöknuðu í morgun var búið að mála ýmis níðyrði og tákn á hann.
Bæjarbúar voru ekki lengi að bregðast við en í kvöld söfðuðust yfir 60 manns saman til að mála yfir skemmdarverkin.
„Þetta gekk alveg rosalega vel. Alveg frábær mæting og samstaða,“ segir Sigríður og bætir við að fáninn hafi verið lengdur og að margir bæjarbúar hafi sömuleiðis stillt upp regnbogafánum við heimili sín til að sýna samstöðu.
„Ég held að fáir bæir séu jafn vel skreyttir af pride-fánum í dag og Hveragerði.“
Þá segir Sigríður að þó hún hafi upphaflega orðið sorgmædd yfir skemmdarverkunum sé það sem standi nú upp úr mikil samstaða bæjaryfirvalda og íbúa.
„Mér finnst afstaða bæjaryfirvalda hafa verið svo flott í gegnum þetta, að blása bara til sóknar með kærleikann að vopni. Það var svo ofboðslega fallegt andrúmsloft og mikil gleði.
Ég var líka þarna í gær og þar var alveg samtaða og gleði en svo einhvern veginn þegar þetta kemur í morgun finnur maður hvað bærinn er sterkur og tekur sterkt við sér. Þannig er Hveragerði fyrir mér.“
Spurð hvort að vitað sé hverjir frömdu skemmdarverkin segist Sigríður ekki vera meðvituð um það en að málið sé hjá lögreglu.
„Ég vona bara að hverjir sem gerðu þetta læri einhverja lexíu af þessu og snúi sér að einhverju öðru. Þetta hefur allavega ekkert upp á sig hjá þeim,“ segir Sigríður og bætir við:
„Nú bara vonum við að þetta fái að vera friði, annars verður fáninn sennilega bara lengdur á morgun og við þurfum að mála allan heiminn á endanum.“