„Þetta er gott sjóskip, sem líður vel á hafinu og fer vel með fólk um borð. Að komast í svona sjómennsku var alltaf draumurinn, þó fjarlægur væri. En þetta varð veruleiki og nú tökum við Norðurhöf og svo verður gert út á Miðjarðarhafið í haust. Á nýju ári verðum við svo komnir í Kyrrahafið og með vorinu í siglingar til Alaska og Kanada,“ segir Gísli Valur Gíslason, 2. stýrimaður á norska skemmtiferðaskipinu Viking Venus.
Skipið norska, sem félagið Viking Cruises á og gerir út, var sjósett árið 2021 og hefur verið í siglingum síðan, til dæmis við Bretland og í Eystrasalti. Íslandsferðin nú er tilfallandi og sú fyrsta og sennilega eina í bili sem þetta skip tekur. Í tilefni af fyrstu komu skipsins til Reykjavíkur var hefðum samkvæmt efnt til athafnar um borð þar sem fulltrúi Faxaflóahafna og skipstjórinn, Norðmaðurinn Rune Loekling, fyrir hönd útgerðarinnar skiptust á gjöfum.
Athygli vakti að hitta íslenskan skipstjórnarmann um borð í skipinu norska. Eyjamaðurinn Gísli Valur Gíslason var í áraraðir á Herjólfi og einn skipstjóra ferjunnar. Var svo kominn í starf hafnsögumanns í Eyjum þegar hann sótti um hjá Viking Cruises og fékk starf sem 2. stýrimaður. Annar Eyjamaður, Valgeir Arnórsson, er hjá sömu útgerð.
Gísli Valur kom á Viking Venus í byrjun ársins, en 465 manns eru í áhöfn; fólk frá alls 53 löndum. Farþegar eru 930; Bandaríkjamenn að stærstum hluta. Skipið er 228 metra langt og þyngdin er 48 þúsund tonn.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag, 8. ágúst.