„Þetta snýr þannig að okkur að skuld skv. skuldabréfinu er í innheimtu og því var þinglýst athugasemdalaust á sínum tíma og höfðum við því ekki ástæðu til að efast um að það væri heimilt,“ segir Hjalti Eyþór Árnason, forstöðumaður lögfræðisviðs Byggðastofnunar, í samtali við Morgunblaðið.
Hann var spurður hvort tæplega 180 m.kr. krafa Byggðastofnunar á hendur sjálfseignarstofnuninni Aurora Observatory kynni að vera í uppnámi sökum þess að í leigusamningi Aurora Observatory við kínverska félagið Polar Research Institute of China sem leigir jörðina Kárhól í Þingeyjarsveit ásamt fasteignum, kemur fram að veðsetning jarðarinnar og fasteigna sem á henni eru sé óheimil, án samþykkis hins kínverska leigjanda. Lán Byggðastofnunar var veitt árið 2020, en téður leigusamningur var gerður 2018 og þinglýst 15. júní sama ár.
Hjalti nefnir að leigusamningnum hafi ekki verið þinglýst sem kvöð á jörðinni og því hafi skuldabréfinu verið þinglýst athugasemdalaust. Hann segir að þegar skjali sé þinglýst sé athugað hvað geti komið í veg fyrir athugasemdalausa þinglýsingu, en um ekkert slíkt hafi verið að ræða þegar skuldabréfinu var þinglýst með veði í jörðinni og fasteignum.
Ákvæði um samþykki leigutaka jarðarinnar fyrir veðsetningu segir Hjalti ekki vera eðlilegt ákvæði í slíkum samningi og ekki endilega kvöð sem hindri veðsetningu jarðarinnar. Hann segir að ekki hafi verið vakin athygli á fyrirvara leigusamningsins um veðsetningu.
Meira um málið má sjá í Morgunblaði dagsins.