Veislan ekki lengur á dagskrá FM957

Veislan heyrir sögunni til.
Veislan heyrir sögunni til. Samsett mynd/Hallur Már/Aðsend

Útvarpsþátturinn Veislan er ekki lengur á dagskrá FM957.

Þetta staðfestir Þórdís Valsdóttir, forstöðumaður útvarpsmiðla Sýnar, í samtali við mbl.is. Hún vill ekki tjá sig um það hvers vegna þátturinn hafi verið tekinn af dagskrá en segir að ákvörðunin hafi verið tekin í dag. 

Þátturinn var í umsjá Ágústs Beinteins Árnasonar, eða Gústa B, og var söngvarinn Patrik Atlason, betur þekktur sem prettyboitjokko, meðstjórnandi í þættinum. 

Dæma sig sjálf

Í síðustu viku lét Patrik umdeild ummæli falla þegar hlustandi hringdi inn til að greiða atkvæði um þjóðhátíðarlag. Undir lok símtalsins spyr Patrik hvort hann ætli að taka með sér botnlaust tjald á Þjóðhátíð. Með botnlausu tjaldi er átt við tjald sem hægt er að varpa auðveldlega yfir áfengisdauða manneskju og brjóta á henni kynferðislega. 

Ummælin hafa vakið mikla reiði meðal fólks og skapaðist meðal annars umræða um þau inn á Facebook-hópnum Baráttuhópur gegn ofbeldismenningu

Þórdís vill ekki tjá sig um það hvort að þátturinn hafi verið tekinn af dagskrá vegna fyrrnefndra ummæla en segir að þau dæmi sig algjörlega sjálf. 

„Þau dæma sig algjörlega sjálf. Það er algjörlega ljóst, allavega frá mínum bæjardyrum séð, að maður talar ekki um jafn alvarlegt mál og kynferðisofbeldi af léttúð,“ segir Þórdís.

Hefur rætt við þá um ummælin

Spurð hvort hún hafi rætt við Ágúst og Patrik um ummælin svarar hún játandi. 

Var þeim sagt upp störfum?

„Þátturinn er ekki lengur á dagskrá FM og þeirra starfssvið, samkvæmt samningi, var þessi þáttur,“ segir Þórdís.

Þannig þeir koma ekki til með að vera lengur í útvarpinu?

„Nei.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert