Kínverjar reyni að ná fótfestu með Kárhóli

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra.
Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra. Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, telur að vísindastarfsemi Kínverja á Kárhóli sé yfirvarp og aðferð til að ná fótfestu hér á landi. Þetta skrifar Björn í  færslu á vef sínum í tilefni af umfjöllun Morgunblaðsins um rannsóknarmiðstöðina Kárhól í Þingeyjarsveit, sem birtist í blaðinu í dag.

„Sé kínverskum yfirvöldum mikið í mun að hafa hér tangarhald á landi er ekki ólíklegt að sendiráð þeirra í Reykjavík beiti einhverjum ráðum til að tryggja Kínverjum áfram aðgang að Kárhóli,“ skrifar Björn. 

Kínverjar stunda rannsóknir á norðurljósum á Kárhóli, sem má rekja til samkomulags um samstarf á norðurslóðum sem gert var á milli Íslands og Kína árið 2012 og utanríkisráðuneytið átti aðild að.

Björn skrifar í færslunni að forsaga samningsins við Kínverja um Kárhól megi rekja til kínverska auðkýfingsins Huangs Nubos, sem reyndi árið 2011 að kaupa Grímstaði á Fjöllum og þar með 300 ferkílómetra lands.

Reynir á staðfestu íslenskra stjórnvalda 

Hann segir Ögmund Jónasson, þáverandi innanríkisráðherra, hafa leikið á Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og þannig stöðvað sölu til Huang. Í kjölfarið hafi verið stofnað til samstarfs á milli Kína og sveitarfélaganna um að nýta jörðina Kárhól. 

 „Sé kínverskum yfirvöldum mikið í mun að hafa hér tangarhald á landi er ekki ólíklegt að sendiráð þeirra í Reykjavík beiti einhverjum ráðum til að tryggja Kínverjum áfram aðgang að Kárhóli.

Ýmsar leiðir eru færar í því skyni, diplómatískar og með fjármunum. Eins og jafnan áður í þessu langa ferli kínverskra landvinninga á þessum slóðum reynir nú á staðfestu íslenskra stjórnvalda,“ skrifar Björn. 

Gæti ekki að ásókn kínverskra yfirvalda

Að endingu nefnir hann að ýmislegt hafi breyst hvað varði þjóðaröryggismál og viðhorf til Kína og þeirra umsvifa á síðustu árum.

Fyrir liggur að engin þjóðaröryggissjónarmið voru höfð til hliðsjónar við upphaf þessa samstarfs. Vakti það umræður utan landsteina. Lá það orð á íslenskum stjórnvöldum og liggur jafnvel enn að þau sýni ekki næga aðgæslu gagnvart ásókn kínverskra yfirvalda. Nú gefst tækifæri til að reka af sér slyðruorðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert