Þorbjörn Steingrímsson, ábúandi á Garðsstöðum utan Súðavíkur, er með stórt safn bíla á einkalóð sinni. Sérfræðingar frá Umhverfisstofnun fóru í svokallað fyrirvaralaust eftirlit að Garðsstöðum árið 2020 vegna ábendingar sem barst stofnuninni um að á bænum færi fram óheimil brennsla úrgangs.
Þorbjörn segir málatilbúnað Umhverfisstofnunar vera runninn undan rifjum nágranna hans. „Þetta er bara algjört kjaftæði, það er verið að ásaka mig algjörlega að ósekju.“
Varlega áætlaður fjöldi ökutækja samkvæmt skýrslu Umhverfisstofnunar var um 350-400. Þá var einnig um 900 fermetra gryfja með ýmiss konar brotajárni og dekkjum á lóðinni. Ummerki voru um að á Garðsstöðum færi fram niðurrif ökutækja, en finna mátti stafla af dekkjum og bílhurðum og búið var að flokka málma og íhluti í fiskikör.
Morgunblaðið fjallaði í júlí um átak Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða og sveitarstjórna á svæðinu í að fjarlægja númerslausa bíla úr hverfum á Vestfjörðum.
Í skýrslu Umhverfisstofnunar frá 2020 segir um bílasafn Þorbjörns að eignarrétturinn sé stjórnarskrárvarinn réttur hvers og eins og hvorki sé ólöglegt að eiga bíla né brotajárnssafn kjósi maður svo. Mengun megi þó ekki hljótast af safninu.
Sé hins vegar um atvinnustarfsemi að ræða, til að mynda niðurrif bíla og sölu á bílavarahlutum, sé slíkt starfsleyfisskylt hjá heilbrigðisnefnd. Þá segir í skýrslunni að í lögum sé atvinnustarfsemi skilgreind sem hvers kyns starfsemi sem sé stunduð í tengslum við hagræna starfsemi, fyrirtæki eða félag, án tillits til þess hvort slík starfsemi sé á vegum hins opinbera eða einkaaðila, og hvort hún er rekin í hagnaðarskyni eða ekki.
Umhverfisstofnun beindi því til Þorbjörns á þeim tíma að ef til stæði að hefja þar atvinnustarfsemi, svo sem niðurrif bíla og bílapartasölu, yrði sótt um starfsleyfi til þess sem allra fyrst. Var því beint til hans að láta af allri starfsemi þar til viðeigandi starfsleyfi hefði verið gefið út.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.