„Þetta er rosa goslegt“

Óljóst er að sögn Benedikts hvort gos myndi teygja sig …
Óljóst er að sögn Benedikts hvort gos myndi teygja sig til norðurs eða til suðurs. mbl.is/Eyþór

„Auðvitað getur þetta tafist en það er svo rosalega hratt vaxandi virkni, skjálftavirkni sérstaklega, að það ætti ekki að koma okkur á óvart. Þetta getur bara byrjað á hverri stundu.“

Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands.

„Það er alveg klárlega vaxandi skjálftavirkni þannig að þetta lítur út eins og það geti ekki verið mjög langt í að þetta sé að fara að gerast,“ segir Benedikt í samtali við mbl.is.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofunni.
Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofunni. mbl.is/Eyþór Árnason

Búin undir að gosið fari í átt að Grindavík

Spurður hvaða sviðsmynd sé líklegust segir Benedikt útlit fyrir að gosið komi upp á svipuðum stað og síðast. Óljóst sé hvort gossprungan myndi teygja sig til norðurs eða til suðurs.

„Það sem við höfum kannski búið okkur undir er að það fari lengra til suðurs, bara af því að það er þá í áttina að Grindavík, þó að það séu ekkert endilega meiri líkur á því,“ segir Benedikt.

Hann segir engu að síður mikilvægt að vera við því búin að gosið fari í suður eða nái jafnvel inn fyrir varnargarðana. Ómögulegt sé að segja til um hvað úr verði en allar líkur séu á að það dragi til tíðinda hvað úr hverju.

Best ef gysi fyrr heldur en síðar

Hann segir Veðurstofuna hafa verið í viðbragðstöðu í um viku og í raun óskandi að það dragi til tíðinda fyrr heldur en síðar. 

„Það væri náttúrlega best ef það myndi taka sig upp núna og breyta um kúrs og fara lengra til norðurs,“ segir Benedikt.

„Það getur bara gerst á eftir, ég vona bara að við þurfum ekki að bíða of lengi. Þetta er rosa goslegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert