Vanir og óvanir þukla á hrútum

Sigurvegarar Íslandsmótsins frá því í fyrra.
Sigurvegarar Íslandsmótsins frá því í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Íslandsmótið í hrútadómum verður haldið í tuttugasta skiptið 18. ágúst. Það er haldið á Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum og hefur verið haldið frá árinu 2003, að undanskildum tveimur árum þegar samkomutakmarkanir stjórnvalda voru í gildi.

Ester Sigfúsdóttir, framkvæmdastjóri Sauðfjársetursins, segir í samtali við mbl.is að undirbúningur gangi einstaklega vel og mikil tilhlökkun sé fyrir mótinu. 

Keppast við mat á hrútunum

Hrútadómarnir sjálfir fara þannig fram að ráðunautur fer fyrir dómnefnd sem metur fjóra íturvaxna hrúta með nútímatækjum og -tólum og raðar þeim í gæðaröð. Síðan reyna keppendur sig við matið á hrútunum og reyna að komast að sömu niðurstöðu og dómararnir. 

Keppt er í tveimur flokkum, annars vegar í flokki vanra hrútaþuklara og hins vegar í flokki óvanra.

Spurð út í muninn á flokkunum tveimur segir Ester að í hópi vanra séu bændur og þeir sem séu vanir sauðfjárbúskap. Þeir meti fjóra íturvaxna hrúta út frá bakbreidd, útliti og samræmi og fara þá eftir stigakerfi sem bændur þekkja vel.

Í flokki óvanra getur hver sem er tekið þátt og meta þeir þá hrútana út frá eigin hyggjuviti og færa rök fyrir máli sínu. 

Vegleg verðlaun og veitingar

Veitt eru verðlaun fyrir efstu þrjú sætin í hverjum flokki og segir Ester að veglegir vinningar verði í boði. Sigurvegari í vana flokknum fær verðlaunagripinn Horft til himins til varðveislu í eitt ár. 

Hátt í 50 manns taka þátt í keppninni á ári hverju og segir Ester að enn fleiri komi til að horfa á. Yfir daginn verða kjötsúpa og kaffihlaðborð í boði bæði fyrir keppendur og gesti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert