Á síðustu þremur dögum hafa átt sér stað að minnsta kosti fjögur atvik á Suðurlandi sem flokkast gætu sem hatursglæpir gegn hinsegin fólki.
Í nótt voru skornir niður tveir regnbogafánar í Hveragerði en annar slíkur fáni var skorinn niður á Selfossi nóttina áður. Það var degi eftir að ýmis níðyrði og tákn voru máluð á regnboga á götu í Hveragerði.
Á fimmtudaginn fjallaði mbl.is um spellvirki á regnbogafána sem málaður var á götu miðsvæðis í Hveragerði til að halda upp á hinsegin daga sem nú standa yfir.
Hvergerðingar voru ekki lengi að bregðast við skemmdarverkunum en málað var yfir þau og fáninn lengdur samdægurs.
Þá sýndu margir bæjarbúar samstöðu í verki með því að stilla upp fánum hinsegin samfélagsins við hús sín og fyrirtæki.
Í lokuðum facebook-hópi Hvergerðinga var greint frá því í morgun að tveir slíkir fánar sem staðsettir voru við hjúkrunarheimilið Ás og Hveragerðiskirkju hefðu verið skornir niður í skjóli nætur.
Þegar mbl.is ræddi við Garðar Má Garðarsson, aðalvarðstjóra lögreglunnar á Suðurlandi, fyrr í dag höfðu ekki enn borist tilkynningar um skemmdarverkin á fánunum í nótt. Hann greindi hins vegar frá því að lögreglunni hefði borist tilkynning í gærmorgun um svipað atvik á Selfossi.
Þar hafði fáni verið skorinn niður fyrir utan fyrirtækið Rarik á Larsensstræti.
„Það er til rannsóknar hjá okkur en það er ekki búið að hafa uppi á gerendum þar,“ segir Garðar og bætir við:
„Menn hafa mikið verið að spyrja út í hvort þetta sé rannsakað sem hatursglæpur og við förum ekkert ofan af því að það er að sjálfsögðu það sem við höfum meðal annars á bak við eyrað og er rannsakað með tilliti til þess.“
Þá hefur lögreglan spellvirkin á regnbogafánanum í miðbæ Hveragerðis einnig til rannsóknar en ekki hefur tekist að hafa uppi á sökudólgunum í því máli.
Í viðtali við mbl.is á fimmtudaginn talaði Pétur Markan bæjastjóri Hveragerðis um að bæjarfélagið myndi mæta hatrinu sem birtist í níðyrðaskrifunum með enn meiri birtu og kærleika.
Þegar mbl.is leitaði eftir viðbrögðum frá honum í dag vegna fánanna sem voru skornir niður í skjóli nætur tók hann í svipaðan streng og lýsti yfir vonbrigðum með atvikin.
„Hveragerði er opið samfélag sem setur mannréttindi á oddinn og upphefur fjölbreytileika þannig að þetta stingur í stúf við það sem við gefum okkur út fyrir og erum,“ segir Pétur.
Þá tekur hann fram að bæjaryfirvöld séu þegar byrjuð að bregðast við en á mánudaginn verða kynntir fyrirlestar og fræðsluátak til að vinna gegn fordómum og hatri líkt og birtist í spellvirkjunum síðustu daga.