Gangan var með besta móti

Mikill fjöldi safnaðist saman í miðborginni í dag vegna gleðigöngu …
Mikill fjöldi safnaðist saman í miðborginni í dag vegna gleðigöngu Hinsegin daga. mbl.is/Ólafur Árdal

Gleðiganga Hinsegin daga sem gengin var frá Hallgrímskirkju að Hljómskálagarðinum í dag var með besta móti að sögn skipuleggjanda. Lögreglan tekur í sama streng.

Gífurlegur fjöldi safnaðist saman í miðborginni til að fylgjast með göngunni og fagna hinsegin samfélaginu og baráttu þess.

Göngustýra Gleðigöngunnar, Anna Eir Guðfinnudóttir, segir að eftir því sem hún best viti hafi allt gengið mjög vel.

„Allt var eins og í sögu bara. [...] Veðrið með besta móti og gangan með besta móti,“ segir Anna.

„Margar milljónir“

Spurð hvort hún geri sér grein fyrir hve margir mættu til að fylgjast með og taka þátt í göngunni segir Anna að það hafi allavega verið „mörg, mörg þúsund manns“ en að hún geti ekki skotið á nákvæma tölu. Á endanum bætir hún þó við: „Margar milljónir!“

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir sömuleiðis að gangan hafi gengið mjög vel.

„Við erum ótrúlega ánægð með daginn,“ segir Hjördís Sigurbjartsdóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert