Hildur var sökuð um að kalla ofbeldi yfir konur

Rætt er við Hildi Sverrisdóttur í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.
Rætt er við Hildi Sverrisdóttur í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. mbl.is/Árni Sæberg

Árið 2012, þegar Hildur Sverrisdóttir, núverandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, var varaborgarfulltrúi, ritstýrði hún bókinni Fantasíur. Bókin geymdi kynlífsfantasíur kvenna og margar þeirra voru ansi djarfar, en konur höfðu sent henni þær undir nafnleynd. Hildur valdi síðan úr þeim og setti í bók sem vakti mikla athygli.

„Ég hef aldrei verið jafn hrædd á ævi minni eins og þegar ég gerði þessa bók. Kjarninn í mér er meira inn á við og jafnvel feimin. Það var því meira en segja það að setja þetta málefni á dagskrá. Ég gerði það vegna þess að ég hafði einlæga trú á að það væri gott fyrir konur að þessi vinkill yrði af hreinskilni settur á dagskrá og að sjálfsögðu líka út af mikilvægi frelsisins í þessu sem öðru, segir Hildur í viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins.

Hélt niðri í sér andanum þegar bókin kom út

„Þegar ég var að byrja að vinna bókina frétti ég að ákveðinn hópur femínista hefði tekið sig saman og ætlaði að senda mér sögur undir nafnleynd. Ef eitthvað af þeim sögum myndi rata í bókina myndi ákveðinn karlmaður stíga fram og segja að viðkomandi saga eða sögur væru eftir sig og bókin því kjaftæði. Þetta vissi ég frá byrjun,“ segir Hildur.

„Ég ákvað samt að klára bókina og svo hélt ég niðri í mér andanum þegar hún kom út. En enginn karlmaður steig fram og sagðist eiga sögu í bókinni. Ég held að ég viti hvaða sögur var um að ræða, tónninn í þeim var ekki réttur og rímaði ekki við það sem ég hafði kynnt mér um þessi mál og þær fóru því ekki í bókina. Femínistunum tókst því ekki að eyðileggja þetta hjá mér. En þær voru mér mjög reiðar og þar fékk ég mína fyrstu upplifun af að vera hötuð af ákveðnum hópi samfélagsins. Þær sökuðu mig um að kalla ofbeldi yfir konur sem var auðvitað sárt. Það sem kom mér í gegnum þetta var að ég var einlægt ósammála þeim og hafði bjargfasta trú á mikilvægi þess að setja staðreyndir á dagskrá og taka umræðuna út frá þeim.“

Hildur segir að flestir þeir sem gagnrýndu hana hvað mest hafi á liðnum árum beðið hana afsökunar.

Rætt er ítarlega við Hildi í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert