Undanfarnar klukkustundir hefur rafleiðni og vatnshæð farið lækkandi í Skálm við þjóðveg 1. Rafleiðni mælist þó hærra en eðlilegt er miðað við árstímann.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Greint var frá því í morgun að rafleiðni hafði hækkað í Skálm og Múlakvísl og varaði veðurstofan við gasmengun.
Í tilkynningunni segir að áfram mælist hækkuð gildi brennisteinsvetnis nærri upptökum Múlakvíslar.
Engar markverðar breytingar hafi orðið í óróa á jarðskjálftamælum í kringum Mýrdalsjökul. Veðurstofan beinir því til ferðafólks á svæðinu að sýna aðgát við upptök ánna og nærri árfarvegunum þar sem gasmengun gæti verið á svæðinu.