Mjög er ólíklegt að Þórisvatn fyllist í haust, en það hefur ekki fyllst í fjögur ár í röð. Þetta segir Ívar Baldvinsson, forstöðumaður vinnsluáætlana hjá Landsvirkjun. Hann segir mögulegt að Landsvirkjun þurfi að fara í vatnssparandi aðgerðir í vetur breytist tíðin ekki til betri vegar.
Ívar segir hlutfallslega stöðu Þórisvatns á þessum árstíma nokkuð laka og við neðri mörk miðað við það sem sést hefur á þessum árstíma.
„Við viljum auðvitað standa betur, þetta skiptir máli fyrir okkur þegar við erum að fara inn í veturinn,“ segir hann. Ívar segir hækka í Þórisvatni eins og venja er yfir sumartímann, en miðað við núverandi fyllingarhraða sé líklegt að ástandið verði svipað og síðasta haust. „Þá vorum við í um 80% fyllingu miðlunarforðans á Þjórsársvæði, sem samanstendur af Þórisvatni og Hágöngulóni.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.