Dregur í efa að tekist hafi að slá á óttann

Ráðherrann Ásmundur Einar Daðason og forstjórinn Þórdís Jóna Sigurðardóttir þegar …
Ráðherrann Ásmundur Einar Daðason og forstjórinn Þórdís Jóna Sigurðardóttir þegar nýja stofnunin var kynnt. Björn Bjarnason fyrrverandi menntamálaráðherra segir stjórnsýsluna eiga skilið gagnrýni og að ráðherra geti ekki vikið sér undan spurningum umboðsmanns barna. Samsett mynd

Algjör óvissa ríkir um hvernig haga eigi námsmati í grunnskólum eftir að samræmdu könnunarprófin voru afnumin. Þetta segir fyrrverandi menntamálaráðherra og bætir við að gagnrýna megi stjórnsýsluna mjög fyrir þá stöðu sem grunnskólar landsins séu í.

Björn Bjarnason, sem gegndi embætti menntamálaráðherra á árunum 1995 til 2002, skrifar á vef sinn um þær breytingar sem Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, vill gera á ákvæðum grunnskólalaga.

Ásmundur Einar vill með þeim leggja af samræmdu könnunarprófin fyrir fullt og allt, en skólayfirvöld gáfust upp á að leggja prófin fyrir grunnskólabörn eftir að upp komu tæknileg vandamál.

Hefur ráðherra verið gagnrýndur fyrir áhugaleysi og skort á stuðningi við fyrirlagningu prófanna.

Óljóst hvenær nýja námsmatskerfið tekur við

Björn bendir á að miklar umræður hafi skapast um námsárangur, innra starf grunnskólanna og stöðu þeirra almennt í kjölfar umfjöllunar Morgunblaðsins og vísar til samantektar sem birt var á mbl.is fyrir helgi.

„Að því er varðar núverandi stöðu grunnskólans er stjórnsýslan mjög gagnrýnisverð og um það hvernig á að haga námsmati eftir að núverandi kerfi er afnumið ríkir algjör óvissa,“ skrifar ráðherrann fyrrverandi, sem áður hefur gagnrýnt Ásmund Einar og skólayfirvöld.

Eins og greint hefur verið frá er unnið að smíði nýs námsmatskerfis, svokallaðs matsferils, í Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, sem tók til starfa fyrr á þessu ári í stað Menntamálastofnunar sem um leið var lögð niður.

Vinna við nýja kerfið hófst árið 2020 og enn er óljóst hvenær hægt verði að taka það að fullu í gagnið. Hafa áform skólayfirvalda og afnám þeirra á samræmdu prófunum mætt töluverðri gagnrýni.

Ráðherrann fyrrverandi bendir á að algjör óvissa ríki um hvernig …
Ráðherrann fyrrverandi bendir á að algjör óvissa ríki um hvernig haga eigi námsmati í grunnskólum eftir ákvörðun skólayfirvalda. mbl.is/Hari

„Hvort lesendur séu nokkru nær ...“

Freyja Birgisdóttir, sviðsstjóri matssviðs hjá nýju stofnuninni, skrifaði grein í Morgunblaðið á fimmtudag og kvaðst vilja út­skýra matsferilinn og hvaða hlut­verki hann eigi að gegna í skóla­starfi. Greinin er reifuð hér til hliðar.

Björn gerir athugasemd við það sem fram kemur í grein Freyju.

„Hún segir:

„Matsferill er safn matstækja sem dregur upp heildstæða mynd af námslegri stöðu og framförum nemenda jafnt og þétt yfir skólagönguna og kemur auga á þau börn sem telja má í áhættu vegna framvindu í námi og þroska.“

Hún talar um matsferilinn eins og eitthvert sjálfstætt fyrirbæri og segir „hlutverk hans“ (1) að fylgjast með hverju barni og tryggja að það fái viðeigandi kennslu og stuðning; (2) að afla upplýsinga um stöðu skólakerfisins í heild þannig að stefnumótandi aðilar geti fylgst með þróun námsárangurs yfir tíma og greint styrkleika og mögulegar áskoranir,“ skrifar Björn og heldur áfram:

„Hvort lesendur séu nokkru nær um hvað hér er á ferðinni ræðst af lesskilningi hvers og eins. Í mínum huga er alls ekki ljóst hvernig unnt er að þróa slíkt kerfi sem virðist eiga að lifa sjálfstæðu lífi og skila hlutlægu mati á árangri barns, kennara og skólakerfisins í heild.“

Ótti sagður eðlilegt viðbragð

Tekur hann fram að hugsanlega sé um að ræða kerfi sem hannað sé í ljósi umræðna um hlutverk gervigreindar. Með því að mata gervigreindina á miklu magni upplýsinga megi fá þá hlutlægu mynd sem felist í matsferlinum.

Björn heldur áfram:

„Í fyrrnefndri grein blaðamannanna á mbl.is er vitnað í Þórdísi Jónu Sigurðardóttur, forstjóra MMS, sem segist á Facebook hafa fundið fyrir átökum um skólakerfið vegna breytinganna sem nú séu í farvatninu. Forstjórinn segir einnig: „Ótti eru eðlileg viðbrögð og sérstaklega þegar fólk áttar sig ekki nógu vel á hvað breytingarnar fela í sér.“

Hafi fyrrnefnd grein Freyju Birgisdóttur verið skrifuð í því skyni að minnka ótta með ótvíræðum upplýsingum má draga í efa að það hafi tekist.“

Fær ekki vikist undan kröfu umboðsmanns

Að lokum bendir Björn á að ráðuneytið hafi frest til 19. ágúst, til að svara skýrum spurningum umboðsmanns barna um stjórnsýslu þess í grunnskólamálum.

„Undan þeirri kröfu fær ráðuneytið ekki vikist,“ skrifar hann.

„Spurning er hvort ráðuneytið telji sér fært að segja skoðun sína á matsferlinum og inntaki hans. Þegar það var spurt um gagnrýni Arnórs Guðmundssonar, fyrrv. forstjóra Menntamálastofnunar, forvera MMS, sagðist það ekki tjá sig um skoðanir einstakra starfsmanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert