„Alltaf þegar við verðum sýnilegri verður einhver viðspyrna en við stöndum bara keik á móti því og höldum áfram,“ segir Bjarndís Helga Tómasdóttir, formaður samtakanna 78, um hatursverknað í garð hinsegin fólks sem fjallað hefur verið um síðustu daga.
Í gær greindi mbl.is frá því að á síðustu dögum hafa átt sér stað að minnsta kosti fjögur atvik á Suðurlandi sem flokkast gætu sem hatursglæpir gegn hinsegin fólki en Hinsegin dagar hafa verið haldnir hátíðlegir síðustu vikuna.
Fánar hinsegin samfélagsins hafa verið skornir niður í Hveragerði og á Selfossi og í vikunni voru spellvirki framin á regnbogafána sem málaður hafði verið á götu í Hveragerði.
Síðustu ár hefur verið greint frá svipuðum atvikum í kringum Hinsegin daga en Bjarndís segist ekki endilega halda að um sé að ræða aukningu milli ára.
„Þetta virðist koma í bylgjum og er meiri þegar sýnileikinn er meiri. Og það er auðvitað meiri sýnileiki í kringum Hinsegin daga,“ segir Bjarndís sem telur þó að samfélagið sé að verða meðvitaðri um afstöðu sína.
„Ég held að við sem samfélag séum að taka meðvitaðri ákvörðun en áður um það hvernig samfélag við viljum vera og ég get ekki betur séð en að íslenskt samfélag vilji vera opið og skapa rými fyrir okkur öll, hvort sem við erum hinsegin eða ekki, til þess að vera nákvæmlega eins og við erum.“
Spurð hvaða áhrif skemmdarverk á borð við þau á Suðurlandi hafi í för með sér segir Bjarndís: „Auðvitað getur það haft ofboðslega neikvæð áhrif á fólk að sjá svona skemmdarverk [...] það getur dregið úr fólki og erfiðar tilfinningar vaknað.“
Hún bætir þó við að skemmdarverkin endurspegli ekki samfélagið í heild sinni en hún nefnir viðbrögð Hvergerðinga við spellvirkjum á hinsegin fánanum sem málaður hafði verið á götu bæjarins sérstaklega í því samhengi:
„Almennt sem samfélag held ég að við séum sammála því að leggja ekki árar í bát og láta þetta ekki stjórna gleðinni. Eins og við sáum bara í Hveragerði, þarna var fólk sem fór bara strax daginn eftir út og málaði fánann aftur, stærri og meiri til þess að mæta þessum skemmdarverkum. Segja „við ætlum ekki að vera svona samfélag. Við erum samfélag sem mætir hlutum með kærleika og við viljum að það sé pláss fyrir okkur öll” og ég held að það sé afskaplega jákvætt.“
Þá segir hún að það skipti máli að allt samfélagið taki þátt í baráttunni, ekki aðeins hinsegin fólk.
„Það skiptir miklu máli að stuðningsfólk okkar grípi inn í og segi eitthvað, sérstaklega þegar hinsegin fólk getur það ekki. Við erum öll hluti af sama samfélaginu og við þurfum öll að taka þátt í að móta það,“ segir Bjarndís.
Í því samhengi talar hún um mikilvægi þess hve stór hluti þjóðarinnar mæti ár hvert á Gleðigöngu Hinsegin daga og sýni þannig stuðning: „Gleðin sem það gefur er náttúrulega óviðjafnanleg.“